Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, December 21, 2007

Raflínur

Uppi eru hugmyndir um að leggja raflínur niður í jörð, í stað þess að láta þær standa ofan á náttúrunni. Þetta mun kosta ríkissjóð hugsanlega um 300 milljarða, bara til þess eins að fullnægja fagurfræðilegum þörfum lopapeysufólks á fjöllum. Fagurfræðilegar þarfir mínar eru þó aðrar. Hvernig tækni manneskjunnar mætir náttúrunni er gríðarlega magnað. Það verður líka seint sagt að tæknin skyggi á náttúruna í þessu samhengi, í rauninni rammar hún náttúruna inn. Auk þess mun þessi framkvæmd skilja eftir sig ör í landslaginu sem alltaf verður hægt að sjá, sama hversu mikið verður reynt að fegra hlutina. Þess vegna er alveg eins gott að vera heiðarlegur. Við notum rafmagn, það er engin skömm af því og óþarfi að reyna að fela það. Hver segir svo að fagurfræði lopapeysufólksins sé réttari en mín?

Wednesday, December 05, 2007

Gjörningar og samsæri

Hef orðið var við ýmis undur á netheimum þessa dagana. Fyrst má nefna frétt um íslenskan listnema í Kanada sem var með vondan gjörning. Koma fyrir sprengjulíkani á almannafæri í nafni listarinnar er frekar naumt. Hvað varð um þessa listamenn sem unnu hörðum höndum við að móta fígúrur í gips, nú eða bara að mála Herðubreið? Gjörningalist getur verið áhugaverð en hún krefst gríðarlegrar vinnu og útsjónarsemi, eitthvað sem listnemin getur hugsað um í steininum. Stærsta gjörningalistin í þessu tilviki fælist líklegast í því að fá viðkomandi til að viðurkenna fyrir sjálfum sér og umheiminum að hann hefði hlaupið á sig.

Á vefritinu Deiglan.com er allt í einu sprottinn upp nokkurs konar gjörningarithöfundur (takið vel eftir hvernig ég endurhugsa orðið gjörning). Deiglupenni einn tók sig nefnilega til og tók heilt blog, í eigu Sóleyjar Tómasdóttur, úr samhengi. Eftir að hafa verið gagnrýndur í Lesbókinni svaraði hann þeirri grein til baka á þeim nótum að pistillinn hefði í raun ekki átt að vera málefnalegur, heldur var um háð að ræða, falið í vissu stílbrigði. Ennfremur er hann ósáttur við að karlkyns Sjálfstæðismenn séu dregnir í dilka, einungis út frá einni grein.

Líkt og listneminn á deiglupenninn í talsverðum vandræðum með að viðkenna mistök sín. Fyrir það fyrsta getur háð verið notað í málefnalegu samhengi og þá er hægt að ræða um áhugavert stílbrigði. Þarna var háðið þó gagngert notað til að gera lítið úr einni ákveðinni manneskju og í raun einelti á ferðinni. Það er heldur ekki rétt að segja að þetta komi Sjálfstæðismönnum ekkert við. Deiglan lætur jú greinina flakka eins og ekkert sé og enginn af pennum vefritsins gagnrýnir þessa döpru grein.

Út frá vissu sjónarhorni er þó hægt að færa rök fyrir að birting greinarinnar endurspeglu tjáningarfrelsi í hæstu hæðum og Deiglunni leiðist það nú ekki. Afur á móti áskilur hún sér rétt til að birta ekki allar athugasemdir sem birtar eru. Þó leyfir hún birtingu á frekar mannorðsmeiðandi athugasemdum í garð Sóleyjar. Svo er önnur spurning hvort greinin hefði verið birt rétt fyrir kosningar?

Að lokum ætla ég að henda í samsæriskenningu. Í byrjun sumars var skilafrestur í samkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni. Um 140 tillögur bárast frá teiknistofum út um allan heim. Síðar í sumar byrjaði svo Iceland Express að þrýsta á skipulagsyfirvöld ríkis og borgar um að reisa flugstöð í Vatnsmýrinni. Samgöngumálaráðherra fannst það bara allt í lagi hugmynd og spáði ekkert í því að þaulmenntaðir arkitektar út um allan heim sýndu Vatnsmýrinni þennan áhuga.

Um daginn reyndi ég svo að grenslast fyrir um hvort von væri á niðurstöðum úr samkeppninni. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar var þó hvergi minnst á þessa samkeppni og heldur ekki á heimasíðu Arkitektafélags Íslands. Það er sem sagt nokkuð ljóst að samgöngumálaráðherra hefur tekist að hakka sig inn á þessa vefi, eytt út upplýsingum og þaggað keppnina niður. Eftir ca. ár munu Reykvíkingar svo uppgötva risastóra flugstöð, handan við risastóru Hringbrautina. Forstjórastaða hjá flugfélaginu verður svo nýr bankastjórastóll fyrir samgöngumálaráðherrann.