Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Wednesday, May 18, 2005

Álver

Þegar ég sá myndina sem fylgdi þessari frétt http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=41893 fyrst hélt ég að einhver photoshopnördinn hefði skeytt álverinu í Straumsvík saman við Þingvelli, annað hvort í áróðursskyni gegn álverum eða hreinlega í gríni. En þegar betur er að gáð þá er þetta alvöru mynd!

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa mynd? Hugsa að flestum fyndist nú fallegra að hafa bara kofana með en ekki álverið. Ég verð að játa að myndin er ótrulega spennandi og vel tekin. Andstæður í ískenskri byggingalist. Sögulegt myndefni.

Hef ekkert á móti verksmiðjubyggingum, oft að finna dramatískt og spennandi formtungumál sem stillir upp andstæðum við ytra umhverfi. Verksmiðjur eru, oftar en ekki, óhjákvæmilegur hlutur í hverju samfélagi til að auka lífsgæði. Tankarnir, sem brjóta upp fjallamyndina á Reykjanesskaganum, eru tákn um trú og von á aukin lífsgæði.

Í fréttinni kemur fram að stækka eigi álverið og í kjölfarið verður höfuðborgarsvæðið eitt mengaðasta svæði Evrópu. Það er nú alveg dræmt. Stóriðjan margumtalaða á að auka lífsgæði en ekki spilla. Hinn upprunalegi tilgangur er orðinn að engu. Tankarnir muna verða að minnisverða um heimsku og skammsýni íslenskra stjórnvalda.

Einnig kemur fram, í sömu frétt, að Reykjanesbrautin verði færð í lykkju til hliðar í kjölfar stækkunarinnar. Meiri vitleysan það! Ímyndið ykkur hvað það væri nú spennandi ef brautin læi beint í gegnum þessa risaverksmiðju? Sé fyrir mér umhverfi eins og í einhverri vísindaskáldsögu. Blade Runner kemur upp í hugann með allt sitt myrkur og óreiðu. Alveg æpandi andstæða að keyra úr fallegri, rómantískri, íslenskri náttúru inn i myrkan, tæknivæddan verksmiðjufrumskóg. Dimmuborgir nútíðarinnar.

Ef yfirvöld ætla að halda mengunum og umhverfisslysum áfram, þá er eins gott að gera það með "stæl". Vona samt að myndin haldist óbreytt.

Monday, May 16, 2005

Ferjan

Ferðalagið allt, tók gríðarlegan tíma. Eftir að hafa gist eina nótt í Aþenu og gengið 20 sinnum í kringum Parthenon var haldið af stað til Lesbos. Ferjan átti að sigla af stað kl. 18 svo við komum tímanlega eða klukkutíma á undan. Fyrir vikið gátum við fylgst með fjölmörgum sígaunum reynandi að smygla sér um borð, æpandi hafnarstarfsmönnum, flautandi bílum og gömlum Grikkjum. Einhverra hluta vegna lagði ferjan ekki af stað fyrr en 7, en þá var hún orðin pakkfull af allra þjóða kvikindum.

Til að stytta stundirnar var ýmislegt gert. Meðal annars farið út á þilfar til að bera Aþenu augum úr fjarlægð. Mögnuð sjón. Hvítt munstur sem breiðir úr sér upp í fjallshlýðarnar. Minnir helst á einhvers konar örvérusamfélag séð úr smásjá. Þegar borgin var úr augsýn tók við lestur úr nýjustu bók hins stórgóða rithöfundar, Haruki Murakami. “Kafka on the shore” heitir bókin og mæli ég með henni, sem og fleiri bókum eftir sama höfund.

Þar sem reynt er að hafa námsferðir eins ódýrar og mögulegt er þá voru engin svefnherbergi pöntuð heldur urðum við sjálf að reyna að finna svefnpláss á gólfinu. Eina rýmið fyrir það var kaffistofa ætluð fyrir almenning. Ég fann smá smugu á gólfinu sem ég leit gríðarlega vel út í fyrstu. Kaffistofan var þó ekki reyklaus, sem var ókostur( þessir frelsisreykingapostular á Íslandi ættu held ég bara flytjast í þessa ferju). Á næsta borði, í allri þvögunni, voru nefnilega tveir svona líka duglegir reykingamenn. Í hvert skipti sem ég var að detta í draumalandið heyrðist kveikjarahljóð og sígarettukapphlaupið hélt áfram. Mikil örvænting yfir þeim. Hlógu svona beavis&butthead hlátri inn á milli innsoga.

Ekki bætti úr skák að það var stormur úti svo bátnum ruggaði all verulega og sjónvarpsmarkaðurinn skrúaður upp í sjónvarpinu. En þrátt fyrir reyk, rugg og nýjastu magavöðvauppfinninguna tókst mér að sofna seint um síðir með hjálp Moon Safari með Air.

Þegar við stigum út úr ferjunni var fjöldinn allur af fólki sem hrópaði hvert ofan í annað og reyndu að komast inn í ferjuna. Lítið gékk þó fyrir aumingja fólkið þar sem vopnuðu hermenn stóðu vörð um ferjuinnganginn. Gríðarlega örvæntingafull stemning. Hef aldrei skilið alveg hvað þarna var í gangi en hef heyrt að þetta sé algengt ástand við komu ferjunnar. Svona nett heimsendastemning.

Fundum svo gulan leigubíl með grísku útgáfunni af Dany De Vito sem bílstjóra, með sígarettu í munnvikinu. Hinsvegar hefði mátt halda að þarna hefði sjálfur James Bond verið að keyra. Hef aldrei keyrt í bíl með bílstjóra sem keyrir svo hratt við hættulegar aðstæður en samt svo öruggur. Leigubílstjóri af lífi og sál. Tek ofan af fyrir því.

Svo lentum við á hótelinu, í Plomari, þar sem við áttum að vera næstu 5 nætur. Þar var fallegt og gott að vera.

Studierejse

Í gær var ég að koma úr studierejse (afsakið slettuna. Finnst orðið “námsferð” hljóma klént) í Grikklandi. Lögðum af stað 5. maí og vorum í 10 daga. Fyrir vikið hef ég ekki verið í sambandi við alnetið allan þennan tíma og hef því ekki hugmynd um hvað er að gerast í heiminum, hvað þá á Íslandi. Gæti þó ekki verið meira sama. Ferðin var nefnilega snilld á alla kanta. Hvar á ég að byrja? Ég veit það ekki. Eina sem ég get ráðlagt fólki í augnablikinu er að finna fram vatnslitina, finna afskektan smábæ í miðjarðarhafinu þar sem er hlýtt og hugsanlega strönd en alls ekkert internet. Setjast svo upp í fjallshlýð og mála. Þetta er ekki flóknara en það.

Wednesday, May 04, 2005

Pólitík: Hvar eru sannfæringar?

Deiglan er athyglisvert vefrit og á margan hátt mjög gott. Þar er að finna vönduð greinaskrif og margt áhugavert ber á góma. Ég er þó, í mörgum tilfellum, ósammála skoðunum sem þar koma fram. Finnst einfaldlega margt annað mikilvægara en endilega að stuðla að (reykngar)frelsi einstaklingsins. Þó vefritið vilji ekki kenna sig við neinn ákveðinn flokk þá stafar tvímælalaust töluverður Sjálfstæðisflokkskeimur af því.

Þess vikuna gera þeir óspart grín af Framsóknarflokknum, segja að hann sé flokkur fyrir hagsmunapotara sem skortir alla sannfæringu.Er reyndar alveg sammála þeim þar. En af hverju að gera grín að flokk sem hallast að þeirra eigin flokk þessa dagana og er í stjórnarsamstarfi með þeim? Ef þetta er svona óhæfur flokkur af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn þá í stjórn með þeim? Er mikil sannfæring að vera með flokk í ríkisstjórn sem skortir sannfæringu? Er Sjálfstæðisflokkurinn að hugsa fyrst um hag þjóðarinnar ef þeir eru svo með hagsmunaflokkinum alræmda í ríkisstjórn?

Hinsvegar hafa vinstriflokkarnir líka dottið í samband með Framsókn og þess vegna ekki alltaf skárri. Eiginlega spurning hvort þetta “ríkisstjórnarkoncept” sé ekki eitthvað að mis?

En af hverju eru þeir að blaðra um í heila viku hvað einn flokkur sé púkó? Taka þeir svona þemavikur á alla flokkana? Af nógu af taka hjá Sjálfstæðisflokknum. Eins og Heimdallarkosningar, sem snúast um sannfæringar, en samt meira um að skrá alls konar fólk (oft án þess að fólk viti það) í flokkinn og hringja sem flest símtöl og væla í fólki: “Við vorum nú saman í Grandaskóla, á ekki að kjósa mig?”

Það er hægt að setja út á alla flokkana sem bjóða sig fram. En ef þeir ætla að rakka einn flokk niður í viku þá verður það að gilda um alla. Ég veit ekki af hverju þeir eyða viku í svona vitleysu, kannski smá gúrkutíð á skynsamlegum sannfæringum? Vonandi.

Sunday, May 01, 2005

Rekinn

Hvaðan kemur þessi dramatíska setning: “Þú ert rekinn!” Er til fólk sem spilar á annað fólk með setningunni? Að reka, vera rekinn. Tengi þetta alltaf við þegar ég bjó í sveitinni og við vorum að reka kindur upp á fjall. Kindur eru nefnilega dýr sem ná alltaf að kreista fram ótrúlega skömmustulegan svip. Skrítið. Að vera rekinn úr vinnu er sem sagt að vera rekinn með skömm eins og kind. Eina sem mér dettur í hug.

Þegar ég vann á bensínstöðinni hér forðum fann ég fyrir sumum kúnnum sem reyndu að ógna manni með tilhugsunninni. Eitt kvöldið, skömmu áður en ég lokaði, var ég að skúra (eins og hinn útpældi gæðastaðlaða handbók starfmannsins ráðlagði mér að gera). Þá gékk inn maður, með góðærisbumbu og grátt í vöngum, inn á skítugum skónum og beint á nýbónað gólfið. Ég býð góða kvöldið. Hann ekki. Hrópar svo: “Bara verið að skúra?” Greinilega geðveikt sáttur við sjálfann sig sem kúnna sem á rétt á að ganga á nýskúruðu gólfi. Ég svara, með hlutlausu röddinni minni: “Já”. Ég stilli mig upp bakvið afgreiðsluborðið og bíð meðan hann hann skoðar þann hluta búðarinnar sem er búið er að skúra gólfið. Svo kemur hann upp að afgreiðsluborðinu. Afgreiðsluborðið er í ca. 120 cm hæð, sem þýðir að hann getur hallað sér yfir allt borðið, með allann sinn þunga, á þann hátt að hann er í hvíldarstöðu. Algeng líkamsbeiting hjá íslenskum körlum með góðærisbumbu. Fer hægt og rólega að segja mér sögu, í kemputóninum. “Ég hef komið hérna áður þegar verið var að skúra. Og það var eins og strákurinn sem var að vinna gengi á eftir mér með kústinn. Ég hringdi nú bara daginn eftir í markaðsstjórann og sagði honum nú bara frá þessu”. Smá þögn. Segir svo hárri röddu: “Og ég sá strákinn aldrei meir!” sagði svo ekkert meir, borgaði, gekk krókaleið út eftir öðru nýbónuðu gólfi og brunaði burt.

Ég byrjaði að skúra aftur í hlutlausa októberskapinu. Hugsaði aðeins um tilgang sögunnar. Tilgangurinn var að reyna að hræða mig, segja mér að ég gæti ekkert verið með neina stæla. Ég gæti átt á hættu að verða rekinn! Hann er kúnni og hefur þess vegna rétt fyrir sér í hvívetna. Greinilega mikill viskubrunnur að átta sig á hinum stórmerka rétti sínum. Ég get bara þakkað fyrir að hafa vinnu.

En af hverju vildi hann hræða mig? Var hann kannski að gera mér greiða? Ég, “unglingurinn” skyldi gjöra svo vel að læra goggunarröðina í samfélaginu. Á mér má gogga núna og ég má e.t.v. gera það sama þegar ég er kominn á hans aldur. Spennandi lífsheimspeki, af því ég er ósammála.