Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, September 21, 2007

Íþróttahornið

Rosalega er ég feginn að þessi Jose Mourinho sé hættur að þjálfa í ensku knattspyrnunni. Fáar opinberar persónur sem fara jafn mikið í taugarnar á mér og hann. Alltaf hefur hann einhvern veginn þurft að tjá sig um hitt og þetta, eins og hann sé einhver Gandalf fótbóltans, klæddur útliti “svala” mafíósans. Íþróttafréttamennirnir hafa svo hver á eftir öðrum spáð í spilin, spáð í Mourinho. Fagnaði því óspart þegar ég las fréttina um að hann ætlaði að hætta. Það sem vakti þó athygli mína var að hann hafði tilkynnt nokkrum lykilleikmönnum sínum fréttirnar með sms-skilaboðum. Ótrúlega væskilslegt. Annars er alveg óþolandi hvað fjölmiðlar ætla að teygja lopann með þessa frétt og spá meira í spilin og Mourinho.

Sjálfur ætla ég að spá íslensku knattspyrnuna í staðinn og varpa fram nokkrum kenningum. Á morgun eigast við FH og Valur. Það þarf engan Mourinho til að segja manni það að FH vinnur Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Ef hinsvegar Valur vinnur, þá er það samt ekkert endilega víst að þeir verði meistarar. Svona er nú boltinn margslunginn.

Svo er það hitt Reykjavíkurliðið, KR. Þeir geta fallið. Fyrir átta árum, árið 1999, urðu þeir hinsvegar meistarar, þá í fyrsta skipti í 28 ár. Sama ár féllu Valsmenn í fyrsta skipti í mannskynssögunni. Eins og svo margir aðrir var ég mættur á KR-völlinn þennan dag. KR-ingar fögnuðu ekki bara Íslandsmeistaratitli, heldur fögnuðu þeir líka þegar vondu fréttirnar af Valsmönnum bárust þeim í eyru. Heldur fannst mér það nú lúalegt.

Valsmenn hafa ekki unnið í 20 ár. Ef þeir vinna þetta árið, þá fellur KR. Vondu árurnar sem stuðningsmenn KR bjuggu til fyrir átta árum munu koma aftan að þeim, á meðan andi Sr. Friðriks mun svífa yfir Hliðarenda.