Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, February 09, 2006

Er að fara til Indlands

Næstkomandi sunnudag er ég að fara til Indlands. Hvorki meira né minna. Þar verð ég í tvo og hálfan mánuð. Ferðast í tvær vikur og verð svo á alþjóðlegu arkitektanema-workshop í tvo mánuði í borginni Ahmedabad. Ferðast ásamt dönskum félaga mínum, Johan, sem einnig fékk hinn ágæta ferðastyrk (leiðist ekki að koma koma þessu að). Já, það eru spennandi tímar framundan.

Síðustu mánuði hef heyrt ógrynnin öll af reynslusögum frá Indlandi, jafnvel frá fólki sem hefur alls ekki verið þar. Fæ ósjaldan að heyra að mér muni verða illt í maganum. Einnig á ég að varast börn sem vantar á útlim en þau koma gjarnan upp að ferðafólki að biðja um pening. Hugsa sér að fá svona ráð. Met það mikils að fá góð ráð og veit að fólk meinar gott eitt með þessu. En er til meiri mótsögn, forðast börn sem í þokkabót vantar á útlimi? Auðvitað er þetta tekið úr samhengi hjá mér. Í því felst þó eflaust upplifunin í ferðalagi sem þessu, í þessu tilviki frekar neikvæð.

Samt sem áður vonast ég til að koma heim með reynslusögur af betri toga. Það þýðir ekki alltaf hreint að koma til baka og tala um hvað heimurinn sé ómögulegur. Við vitum öll að það er fátkækt á Indlandi. Annað sem ég ætla EKKI að gera er að er að taka andlitsmynd af fátæku barni. Er til meiri klisja? Fólk sem á pening fer til fátækralanda að horfa á fólk sem á ekki pening og tekur svo myndir af því.

Þetta kann að hljóma tilfinningasnautt og eflaust ósanngjarnt af mér að segja þetta. Ég hef jú ekki verið þarna ennþá og get þar af leiðandi ekki sett mig í spor þeirra sem taka myndir af fátæku fólki. Hver veit nema ég muni upplifa einhverjar tilfinningar sem fá mig til að gera slíkt hið sama? Ef þannig færi, þá er samt ekki þar með sagt að ég þurfi að sýna neinum þessar myndir. Þær yrðu fyrir mig einan og engann annan. Ég er fyrst og fremst að ferðast fyrir sjálfann mig, meira en að ferðast til að koma með ferðasögur.

Þess vegna er hætt við því að þetta blogg mitt muni eitthvað leggjast í dvala. Hef ekki nokkurn einasta áhuga á að þetta verði blogg með ferðasögu: “Dheli var stórbrotin borg, mikið af fólki. Ég sá mann spila á flautu með tilheyrandi slöngu dansandi upp úr körfu og blabla...” Vil þó ekki útiloka neinar færslur, ef mér dettur eitthvað sem mér finnst eiga heima á blogginu og er í sömu mund nálægt interneti, þá getur allt gerst.

Það er ótrulega spennandi tilhugsun að fara í allt annan menningarheim núna eftir örfáa daga. Frábært að maður skuli fá tækifæri til að gera svona lagað. Þetta verður snilld.

Saturday, February 04, 2006

Arkitektúr og skipulag: Rem Koolhaas til Íslands

Síðustu áratugi hefur gengið frekar illa að skipuleggja Reykjavík. Núverandi borgaryfirvöld fá þó prik í hattinn fyrir að fá einn áhrifamesta arkitekt nútímans til að hjálpa sér, sjálfann Rem Koolhaas. http://en.wikipedia.org/wiki/Rem_Koolhaas Stórfréttir. Hlutverk hans er að vera sérlegur ráðgjafi í sambandi við uppbyggingu Vatnsmýrarinnar.

Spennandi verður að sjá hvað Rem mun hrista fram úr erminni. Það er nefnilega ekki víst að það verði það sama og kaffihúsadýrin í 101 munu ímynda sér. Án þess að verða of fræðilegur ætla ég að reyna að gefa lesendum örstutta innsýn í hugmyndafræði Koolhaas.

Hugtakið “borg” er talsvert öðruvísi hjá Koolhaas. Heimurinn verður ein stór borg. Borgarmynd, þar sem bílar og verslunarmiðstöðvar eru allsráðandi, er það sem koma skal. Í stað þess að vinna á móti áhrifum markaðsafla á borgarskipulag tekur hann beinlínis útgangspunkt í þessi öfl. Yen, Euro og Dollars verður að formúlunni YES. Heimsvæðing er það sem koma skal. Hlutverk arkitektsins er að vinna eftir þörfum markaðsaflanna án þess að reyna að breyta heiminum. Þannig hafa skýringarmyndir (diagrams) verið afgerandi þáttur í hönnun. Hlutverk arkitektsins sem listamanns á þarna ekki upp á pallborðið.

Flugvellir spila stórt hlutverk í hugmyndafræði Koolhaas. Í heimi þar sem allt gengur út á viðskiptaferðalög mun fólk eyða gríðarmiklum tíma á flugvöllum. Samkvæmt því á flugvöllurinn að vera n.k. miðpunktur hverrar borgar. Fólk sem lifir og hrærist í heimsvæðingunni þarf ekki á heimili að halda, frekar bækistöð nálægt flugvelli. Fólk sem vill koma sér upp heimili getur svo búið í úthverfum, í nægilegri fjarlægð, þar sem það getur grillað lambalærið sitt í friði.

Samkvæmt þessum fræðum er alveg eins líklegt að Koolhaas muni leggja til að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Ef hann kemur með þá hugmynd verður spennandi að sjá hvernig hann hugsar landið allt og tengsl þess við Reykjavík. Ef hann hinsvegar kaupir hugmyndir borgaryfirvalda um að láta völlinn fara, þá er alveg eins líklegt að Vatnsmýrin verði að einni stórri viðskiptamiðstöð með himinháum blokkum og með nóg af verslunarmiðstöðvum. Reykjavík mun eiga sitt “Wall Street”. Annar miðbær, eins og við þekkjum hann í dag, mun ekki verða að veruleika.

Eins og staðan er í dag er almennt álitið að byggð í Vatnsmýrinni sé hin endanlega lausn fyrir Reykjavík, n.k. töfralausn. Risavegir eins og Miklabraut og stóru blokkirnar í Breiðholtinu voru ekki ósvipaðar töfralausnir á sínum tíma. Þrátt fyrir að hugmyndafræði Koolhaas sé á margan hátt spennandi og eigi vel við í dag, þá er hún ekki endilega lausnin í Reykjavík. Í því samhengi hefði ekki verið vitlaust að leita til danska arkitektsins Jan Gehl. http://en.wikipedia.org/wiki/Jan_Gehl Í hugmyndafræði hans kemur fólkið fyrst og svo bíllinn.

Það er alveg ljóst að landið allt verður að taka með inn í reikninginn hvað varðar færslu flugvallarins úr Vatnsmýri. Þess vegna er það einlæg von mín að Rem Koolhaas muni staldra við og sjá í gegnum töfralausnir, spyrja stærri spurninga en gert er í dag og sjá landið í heild sinni í stað þess að einblína á Reykjavík. Það er kominn tími til að Íslendingar staldri við og hugsi málið, í stað þess að stökkva á töfralausnir.

Wednesday, February 01, 2006

Frelsi til að hugsa sjálfstætt

Rakst á umhugsunarverða grein eftir Bolla Thoroddsen, formann Heimdallar. http://www.frelsi.is/greinar/nr/3698 Í greininni lýsir hann ánægju sinni yfir auknum áhrifum Sjálfstæðismanna í framhaldsskólum landsins. Ég, aftur á móti, lýsi yfir mikilli óánægju minni og eiginlega áhyggjum yfir þessari þróun.

Áhyggjur mínar beinast þó ekki einungis að áhrifum Sjálfstæðisflokksins sem slíkum. Er almennt á móti afskiptum stjórnmálaflokka í framhaldsskólunum. Á MR árunum fann ég sem betur fer ekki fyrir þessari stjórnmálabylgju. Þar hafði fólk einfaldlega frelsi til að leita uppi sín áhugamál án afskipta stjórnmála. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn rembist með sínar hugsjónir í menntaskólana, þá eru eru þeir (sjálfskipaðir boðberar frelsis) að svipta nemendur frelsi til að þroska sig sjálfstætt og velja sína eigin leið.

Bolli hefur hinsvegar ekki mikla trú á að unga fólkið geti hugsað sjálfstætt og tamið sér gagnrýna hugsun án þátttöku í stjórnmálum. Hann skrifar:

Þátttaka í stjórnmálum er einstakt tækifæri fyrir ungt fólk til að læra, þroskast, kynnast öflugu fólki og ekki síst skemmta sér. Um leið og fólk tekur aukinn þátt fer það að lesa blöðin með gangrýnni hætti, fylgjast betur með fréttum, læra að efast og taka meiri þátt í stjórnmálaumræðum við eldshúsborðið heima.

Óhugnanlegast í greininni er þegar hann talar um ungliðahreyfingar sem æfingabúðir og n.k. skóla.

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka eru þegar vel tekst til í senn æfingabúðir, skólar, uppspretta nýrra hugmynda og afþreying. Þær eiga að vera skólar þar sem nýjar hugmyndir eru þróaðar og prófaðar, haldnir eru fyrirlestar og fram fer rökræða, jafnt um grundvallargildi stjórnmála, sem dagleg úrlausnarefni þeirra.

Stærsta vandamál þessara hugmynda er eflaust sú trú hans að maður geti lært og lesið sér til um hvernig samfélagið eigi að vera. Í þessu samhengi er miklu mikilvægara að fólk fari út í samfélagið og upplifi það, t.d. þegar það fer að vinna á sumrin. Einnig verður að hafa það í huga að langflestir menntaskólanemar búa í vernduðu umhverfi foreldrahúsanna. Það hefur ekki prófað að lifa sjálfstætt og komast þannig í samband við kerfið. Að búa sjálfstætt er miklu meiri prófsteinn á að kynna sér samfélagið en að heyra um það hjá einhverjum ungliðahreyfingum.

Nú veit ég að það eru komin foreldrafélög í menntaskólana. Það er vonandi að þau taki við sér og mótmæli þessari þróun. Menntaskólanemar nútímans verða að fá tækifæri til að hugsa sjálfstætt án afskifta stjórnmálaflokka.