Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, December 28, 2006

Ársins

Hef mismikið álit á fyrirbærinu manni ársins. Tímaritið Nýtt Líf valdi Dorrit Moussaieff konu ársins. Þá er manni spurn: hvað voru íslenskar konur að gera árið 2006? Að sjálfsögðu ber að hrósa forsetafrúnni fyrir framlag sitt til góðgerðamála. Efast þó um að hún sé sú eina sem hafi veitt lítilmagnanum athygli. Hún hefur hinsvegar greiðari aðgang að fjölmiðlum en aðrir og henni leiðast þeir ekki.

Þó má segja að ýmsir sem hljóta nafnbót af þessu tagi eigi hana skilið. Líka góð dægurfluga í skammdeginu. Nauðsynlegt er að dreifa athygli fólks frá hinu endalausa myrkri sem nú sveimar yfir. Maður spyr sig samt af hverju val af þessu tagi þarf alltaf að vera svo persónubundið. Er það ekki frekar ein sterk heild sem stuðlar að velgengni frekar en eitt stykki Hannes Smárason? Er ekki líka kominn tími á eitthvað nýtt “ársins”? Hvað er arkitektúr ársins 2006?

Hvað stendur upp úr í umhverfi okkar á þessum tíma góðæris? Erfitt er að öðlast yfirsýn á nýjum arkitektúr þessa árs og þess vegna auglýsi ég eftir tilnefningum í athugasemdakerfinu að neðan. Þetta getur verið gott borgarskipulag, landslagsarkitektúr, einstakar byggingar eins og stórt verlsunarhús og allt niður í fuglahús úti í garði. Þarf ekki endilega að hafa verið tilbúið nákvæmlega á árinu, aðalmálið er að draga fram eitthvað gott í umhverfi okkar síðustu ára.

Nú er bara málið að koma með tilnefningar í athugasemdakerfið eða senda mér tölvupóst á bjarkigh hjá gmail.com. Verðlaunaafhending auglýst síðar. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Friday, December 22, 2006

Reykjavík

Alltaf spennandi að koma til Íslands eftir nokkurra mánaða fjarveru. Oftar en ekki hefur eitthvað breyst. Tökum Reykjavíkurborg sem dæmi. Það var vissulega breyting til verri vegar þegar Hringbrautin var stækkuð og færð til. Þessa dagana er þó verið að setja hinn fræga punkt yfir i-ið í smekkleysu borgaryfirvalda. Ný bensínstöð á einum fallegasta stað boargarinnar sunnan við Þingholtin. Ekki bara einhver lítill skúr, meira í líkingu við verslunarmiðstöð.

Þessi hörmung skrifast að stóru leyti á borgaryfirvöld. Hinsvegar gleymist oft að gagnrýna sjálft fyrirtækið sem stendur fyrir óskapnaðinum. Bensínrisinn Essó. Gott dæmi um hvernig markaðurinn sniðgengur alla samfélagslega ábyrgð. Einnig íbúa nálægs hverfis sem mótmæltu þessum framkvæmdum. Áður óþekktur “aktavisti” í mér hvetur þess vegna fólk til að sniðganga bensínstöðina, í mótmælaskyni við smáborgarahátt markaðsaflanna.

Ýmsar fleiri smekkleysur hafa skotið upp kollinum á liðnum árum. Samt sem áður er óþarfi að einblína alltaf á verri hliðina, sjá þess í stað fegurðina í hlutunum eins og þeir eru. Gera upp við þá hallærislegu klisju um að Reykjavík sé ljót borg. Hún hefur sinn stíl. Þess vegna bendi ég fólki á að skoða þessa heimasíðu hér og skoðið hana gaumgæfulega. Myndirnar fanga á sterkan hátt einkenni íslenskrar menningar, fyrr og nú.

Thursday, December 14, 2006

Eigið ágæti

Um daginn var ég að tala um eitt verkefni mitt við danskan vin minn. Hann sagði eitthvað á þá leið að ég væri nú góður í svona löguðu. Ég svarari: "Ja, det er faktisk rigtig". Hann varð nokkuð hissa á þessu svari og fannst athyglisvert hversu oft ég svaraði á þennan hátt. Dæmigert danskt svar hefði nefnilega verið: "Nej, det er jeg ikke saa god til". Þessi ágæti vinur minn er þó blessunarlega laus við þennan hugsunarhátt. Svona svör eru nefnilega tóm og gera ekkert gagn.

Í framhaldi þessarar umræðu talaði hann um "Jentelagen" (eða Jenteloven) og áhrif þess á danskt samfélag. Þau ganga í stuttu máli út á að maður sé ekki merkilegri og/eða betri en aðrir. Gott og vel. Mikilvægt er að fólk tileinki sér vissa auðmýkt og sé ekki hvað eftir annað að setja sig á háan stall. Það er samt engin afsökun fyrir því að draga úr sínu eigin ágæti. Í ofanálag getur það haft öfug áhrif. Tökum sem dæmi námshestana sem væla yfir sjálfu sér eftir próf og fá svo 10. Þessar oft ágætu manneskjur senda út neikvæð skilaboð til annarra, þeirra sem gengur verr. Ef dúxunum finnst það vera ömurlegt, hvernig á þá öðrum að líða?

Hinsvegar er líka mikilvægt að fólk leyfa sér að keppa við sjálft sig og vera metnaðarfullt. Vitneskjan um að hafa ekki gert sitt besta getur nefnilega verið gríðarlega pirrandi. Hver og einn verður svo bara að sætta sig við sín takmörk. Lífræn efnafræði, þar er ég ekki á heimavelli. Samt eru gáfur hvað varðar raungreinar oft heillandi og í kjölfarið "inspirerandi". Hægt er að láta sig dreyma um ýmsa hæfileika sem eru víðs fjarri. Auglýsingin um landsliðsmanninn í knattspyrnu lýsir þeirri tilfinningu á skemmtilegan hátt.

Þegar það gengur vel, þá er sjálfsagt að njóta þess. Og í ljósi þessa alls eru "Jantelagen" hreinlega niðurdrepandi. Í raun fyrirbæri í sjálfu sér. Hver hefur nógu ríkt hugmyndaflug til að kasta fram svona meiriháttar leiðinlegu "manifesti"? Vissar tilvistarpælingar skjóta líka upp kollinum. Ef höfundurinn hefði ekki trúað á sitt eigið ágæti, þá hefðu þessi einkennilegu siðalög tæplega orðið að veruleika.

Saturday, December 09, 2006

Jólaskeyti

Eftir 10 daga kemur undirritaður til Íslands, í jólafrí. Já, það heitir frí. Friður og ró. Það hefur verið mikið álag á hinni viðkvæmu sköpunargáfu minni. Gáfurnar þarfnast hvíldar. Þess vegna á ég auðvitað von á að þarfir annarra verði beygðar eftir minni hentisemi. Fer ekki fram á mikið. Ennfremur stefni ég á að koma heim, hlaðinn jólagjöfum til ættingja og vina. Jólaandinn sko. Er aftur á móti arfareiður yfir að hafa misst af hinni hjákátlegu Coca Cola bílalest. Vonandi að einhver bæti mér það upp núna í fríinu.

Sunday, December 03, 2006

Kominn úr klaustri

Það hefur verið mikið um að vera síðasta mánuðinn. Hélt m.a. fyrirlestur, mældi upp gamlan kjallara og tók þátt í samkeppni. Skiluðum inn í samkeppnina síðastliðinn föstudag. Vann þar með frábæru fólki, Íslendingunum Helga og Ástríði og Dönunum Uffe og Morten. Mikið verð ég glaður þegar fólk vill gera skemmtilega hluti og hafa gaman í leiðinni. Eins og gengur og gerist var mikil spenna síðasta daginn og svefnlaus nótt í kjölfarið. Ástríður fær svo fullt hús stiga fyrir framtaksemi sína á föstudaginn. Stóð fyrir huggulegum hádegisverði og líka kvöldverði þar sem ég reyndar steinsofnaði. En svona góð hópavinna er svolítið eins og handboltalandsliðið, mikil stemning þar sem öll þjóðin spilar með. Þegar við höfðum skilað kom í kjölfarið hið stórgóða Vangelis lag/þema úr myndinni Chariots of Fire, upp í hugann.

Þriggja vikna dvöl í klaustri var einnig upplifun. Mikill lærdómur felst í að mæla upp gamlan kjallara og það tekur sinn tíma. En aðeins um klaustrið. Þetta var ekki munkaklaustur, eins og kom fram í síðustu færslu, heldur nunnuklaustur. Þarna hafði undirritaður verið of fljótur á sér, ekki nógu gott. Þetta var þó ekki lengi nunnuklaustur, þær hurfu við siðaskiptin og danskir aðalsherrar tóku við og umbreyttu klaustrinu í herragarð. Danskir restaureringsarkitektar falla einhverra hluta vegna kylliflatir fyrir herragörðum og gera allt til að varðveita þá. Aðalsherrarnir gerðu þó ekkert til að varðveita 300 ára sögu nunnuklaustursins á sínum tíma svo þessi óstjórnlega virðing gagnvart þeim er fremur undarleg. En nóg um það.

Klaustrið er í dag staður til að vinna í friði og ró. Fólk lokar sig af í nokkrar vikur frá umheiminum og vill ekki heyra eitt einasta hljóð. Nema þegar það fer inn í eldhús að búa sér til mat, þá talar það hvort við annað. Þó var ég aldrei var við að það eldaði saman, það var of upptekið við að vera eitt í friði. Fólk var þarna í ýmsum tilgangi, sumir að vinna rannsóknarverkefni en aðrir sömdu ljóð og voru skapandi. Þarna var eitt ljóðskáld sem samdi ljóð um hitt fólkið í klaustrinu. Danir hafa það gott.

Kaupi þennan einstaklingsmiðaða frið ekki alveg, a.m.k. ekki fyrir sjálfan mig. Þegar ég sofnaði í kvöldverðaboðinu, eftir að við sem hópur unnum linnulaust saman gott verkefni, þá fann ég svo sannarlega friðinn. Friðurinn getur líka verið í samfélagi með öðru fólki. Það er snilld.