Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, October 28, 2005

Kjóstu mig... mamma!

Prófkjör Sjálfstæðismanna er í nánd, sem er s.s. ekkert merkilegt. Frambjóðendur segja gjarnan voðalega fallega hluti, eins og að hlúa betur að öldruðum. Segja samt ekkert hvernig. Líka að lækka skatta. Alltaf svo frumlegir en nóg um það.

Það sem er merkilegt, er þegar eitthvað innanbúðarkjör á sér stað í flokknum. Þá kemur upp árátta til að vilja skrá “ekki-sjálfstæðismenn” í flokkinn. Meira að segja hafa þeir skráð félaga annarra flokka í sinn flokk. Það er rosalega heimskulegt. Þeim finnst það allt í lagi. Segjast mundu gera það sama fyrir viðkomandi kunningja í öðrum flokk. En af hverju er það heimskulegt?

Tökum dæmi. “Ekki-sjálfstæðismaður” getur gengið eins og ekkert sé í flokkinn. Hann myndi bjóða sig fram í prófkjöri. Vinir hans, “ekki-sjálfstæðismenn” myndu safna saman liði til að skrá sig í flokkinn og kjósa viðkomandi. Hann yrði svo kosinn og í stjórnartíð sinni myndi hann flippa feitt. Í kjólfarið myndi flokkurinn tapa í næstu kosningum og “Ekki-sjálfstæðismenn” vinna.

Þetta er auðvitað ýkt dæmi en möguleikinn er fyrir hendi. En ef hvatt er til þess að fólk skrái sig í flokk gegn sannfæringu sinni, af hverju þá ekki að fara alla leið og vera með smá sprell?

Það að biðja fólk að kjósa gegn sannfæringu sinni ber vott um virðingaleysi gagnvart náunganum. “Hvaða, hvaða. Þú ert nú bara á einhverju vinstrilistamannaflippi. Koddu nú og kjóstu!” Svona á þetta ekki að vera. Það að setja vinafólk og fjölskyldu í þess háttar aðstæður er líka ósanngjarnt. Vinum og vandamönnum vill maður allt hið besta. Þennan tilfinningatengda þátt ber að virða í stað þess að misnota og koma sjálfum sér á framfæri.

Það er örugglega ekki auðvelt að vera frambjóðandi. Tekur örugglega mikla orku og er stressandi. En þá er ekki þar með sagt að það eigi að vorkenna fólki og kjósa það. Í stjórnmálum verður hver og einn að vera sjálfstæður, óháður ættingjum og vinum, til að lifa af í hörðum heimi.

Tuesday, October 25, 2005

London

Þar er mikið af fólki. Heimsótti borgina í haustfríinu sem og Skotland í nokkra daga. Var þó aðallega að heimsækja frændfólk mitt. Hitti einnig Ara vin minn (sem á heiðurinn á “bjarkitekt” nafninu) en hann stundar nám í kvikmyndaskóla í borginni. Gríðarlega skapandi og skemmtilegar manneskjur allt saman. Gaman.

Þegar ég var í Skotlandi leið mér allan tímann eins og í breskum sakamálaþætti með tilheyrandi stefi úr Ruth Rendell þáttunum. Athugull allan tímann, sérstaklega þegar mér var boðið upp á te. Ekkert grunnsamlegt gerðist.

Að vanda hittir maður margt áhugavert fólk í svona ferðum. Gaur sem sat á móti mér í lest var nýsloppinn úr herfangelsi. Sat inni í mánuð. Fannst það ekki gaman. Ef það er agi í hernum þá er víst agi í x veldi {x : 2,3,...} í svona fangelsi. Af hverju hann sat inni, fékk ég þó ekki að vita.

Í borg eins og London verða líka gríðarlega margir tvífarar á vegi manns. Tvífari ferðarinnar var gaur að nafni Anand og var hann indversk útgáfa af vini mínum Snorra Stefánssyni, lögfræðinema.

Skemmtanalífið lét ég heldur ekki ósnortið. Þar ber hæst að nefna svokallað “skvatt-party”(ekki hugmynd hvernig er stafað, pirrandi). Hér er um að ræða hóp fólks sem flyst saman í yfirgefin hús. Í veislunni voru gríðarlega margir, ca 800 manns. Haldið í þriggja hæða fyrrverandi iðnaðarhúsnæði og tónleikar á hverri hæð. Einn stigagangur og eitt klósett. Fólk af öllu tagi. Þó aldrei séð eins mikið af pönkurum. Huggulegt fólk. Líka börn og meira að segja hundar. Lög og regla eru ekki þarna. Hinsvegar góð stemmning og friðsamleg samkoma.

Í London er líka arkitektúr. Spennandi. Það sem stendur þó upp úr í svona ferð er samvera með góðu og skemmtulegu fólki.

Tuesday, October 11, 2005

Fréttir... af mér

Í dag ætla ég að taka mér hlé í að hafa skoðanir á öllu mögulegu. Þess í stað ætla ég að lýsa yfir gleði minni yfir að hafa hlotið ferðastyrk. Já, það er gaman að vera til.

Styrkurinn er gefinn til 5 nemanda, einum af hverri deild, sem þykir hafa staðið sig vel í námi að mati kennara hverrar deildar. Ég var s.s. tilnefndur til styrkveitingarinnar. Það er ekkert nema gríðarlegur heiður. Einnig mjög þakklátur.

Styrkveitingin fór fram á 40 ára afmæli skólans núna um síðustu helgi. Svo skemmtilega vildi til að ég var ekki sá eini úr vinahópnum sem fékk styrk en auk mín fékk Johan og Julia styrk. Ekki leiðinlegt að vera innan um svo hugmyndaríkt og skemmtilegt fólk hérna úti!

Aðdragandi sjóðsins bakvið styrkinn er reyndar nokkuð sorglegur. Árið 1986 fórust tveir arkitektanemar, Tina og Henrik, í bílslysi þegar þau voru í námsferð í Tailandi. Fyrir vikið var gefin út bók til minningar um þau sem heitir “Fantasi eller virkelighed”. Þar er að finna greinar eftir ýmsa duglega arkitekta ásamt ferðaskissum og teikningum eftir Tinu og Henrik. Greinararnar fjalla um gildi námsferða og þá auðmýkt sem hver og einn þarf að temja sér fyrir faginu. Mjög samúðarfull bók en á sama hátt “inspirerandi” og hvetjandi.

Næsta skref er að komast að því hvert ég ætli að fara, hvenær og hversu lengi. Í ferð sem þessari hef ég áhuga á að læra um arkitektúr í framandi menningarheimum og hvernig arkitektar frá hinum vestræna heimi geta notað krafta sína í þróunaraðstoð. Í því samhengi hefur Indland verið ofarlega á óskalistanum og er ég nú þegar byrjaður að afla mér upplýsinga. Stefni á að ferðalag á næstu önn.

Að hljóta svona styrk er mikil hvatning. Einnig er talsverð ábyrgð sem þessu fylgir. Í því samhengi er mikilvægt að geta miðlað reynslu sinni af svona ferð til annarra, líkt og gert er áðurnefndri bók. Nú er bara að halda áfram og gera sitt besta.

Sunday, October 09, 2005

Fréttaskýring

Samtökin Vinir einkabílsins stofnuð
Þetta er eiginlega stórfrétt. Að fólk hafi sköpunarkraft í sér til að koma svona heimskulegum samtökum á laggirnar er aðdáunarvert. Ég veit reyndar ekki enn hvort þetta sé einhver grínfrétt? Hefur Baggalútur.is náð að hakka sig inn á vef Moggans? Eða eru þetta bara einhverjir algörir grínarar sem standa á bak við samtökin? Ef svo er, þá er þetta næstum því smá fyndið. Ef hinsvegar ekki, þá eru þetta mjög eigingjörn og sjálfhverf samtök. Hvað um hugsa fyrst um aðgengi aldraðra, barna og þeirra sem hreinlega ekki eiga bíl? Hugmyndin um almenningssamgöngur er ekki bara “flipp”! Hafa þeir heyrt orðið mengun? Vita þeir að Reykjavík er nú þegar eitt stórt malbik? Vita þeir eitthvað?

Í fræðibókum um skipulag er Reykjavík tekin sem dæmi um hvernig eigi ekki að standa að málum. Það sem þeir ekki vita er að ef til væru alheimssamtökin “Vinir einkabílsins” þá væri Reykjavík n.k. Mekka þeirra samtaka.