Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, August 27, 2006

Draumur

Monday, August 14, 2006

Ganga

Það var líf og fjör í “gaypride” göngunni í gær. Gaman að því. Einnig ber að fagna löggjöf um aukin réttindi samkynhneigðra nú fyrr í sumar. Áhugavert er að velta fyrir sér hversu mikil áhrif þessi ganga hefur haft á gang mála? Tvímælalaust mikil. Eru skrúðgöngur e.t.v. eitt besta baráttuvopn minnihlutahópa? Ef svo er, þá er spurning hvort unt væri að halda innflytjendagöngu? Bjóða útlendinga velkomna í eitt skipti fyrir öll.

Hugsanleg ástæða þess hversu innflytjendur aðlaga sig oft illa er eflaust óöryggi í nýju og framandi umhverfi. Þetta óöryggi þekki ég sjálfur frá Indlandi, þrátt fyrir að Indverjar sé með eindæmum vinalegir. Íslendingar virka ekki alltaf jafnvinalegir og enn síður íslensk stjórnvöld í þessum málefnum.

Í kringum innflytjendur hefur oft myndast umræða af neikvæðum toga; þeir nenni ekki að læra málið, halda sig út af fyrir sig og svona má lengi telja. Í Danmörku er staðan öllu verri, þar er búið að stofna stjórnmálaflokkinn ”den danske folkeparty” sem beitir sér beinlínis gegn innflytjendum. Atburðir 11. september, árið 2001, hafa einnig sett strik í reikninginn. Tortryggni gagnvart útlendingum hefur aukist um allan heim. Einfeldnisleg utanríkisstefna Bandaríkjanna stráir svo salti í öll sár.

Þess vegna er bráðnauðsynlegt að snúa við blaðinu. Fjölmargt er hægt að læra af nýrri hugsun sem streymir inn í landið. Menningu innflytjenda verður því að varðveita og unt væri að gera það í göngu. Hvert og eitt land gengur niður Laugaveginn, dansandi í þjóðbúningi (eða hvað eitt sem þeim dettur í hug) til að kynna okkur Íslendingum menningu sína. Með því að beina kastljósinu að innflytjendum í einn dag, eru auknar líkur á betri sjálfsmynd og virkari þátttöku í íslensku samfélagi.

Wednesday, August 09, 2006

Hagvöxtur

Það er á margan hátt erfitt að vera með beina sleggjudóma gagnvart einstökum bankastjórum sem fá há laun. Við almenningur þekkjum þá ekki neitt, vitum ekki hvort þeir gefa megnið af laununum í hjálparstarf eða hvort þeir séu í glæsisnekkjustílnum og eigi einkaþottu.

Engu að síður finnst mér ýmis konar plebbaskabur fara vaxandi, samfara aukinni hagsæld, í þjóðfélaginu. Um daginn heyrði ég hálf sorglega sögu þessari tilfinningu minni til stuðnings. Ungur maður, rétt yfir tvítugt, átti afmæli. Svo vill til að kærasta viðkomandi er mikill feministi og ekkert nema gott um það að segja. Félögum hans finnst þó greinilega ekki eins mikið til þess koma. Eru í þokkarbót rosalegir brandarakallar og gáfu félaga sínum fatafellu í afmælisgjöf.

Fyrir það fyrsta er þessi afmælisgjöf eflaust sönnun þess að kvennéttindabarátta er jafn mikilvæg og áður. Að gera lítið úr heilbrigðum hugsjónum er eitt af því sem við getum gert, ef við eigum pening. Hagvöxturinn hefur s.s. ekki skilað okkur eins langt í andlegum málefnum.

Mánaðarlaun, ofurhá eða ekki, eru í raun bara tölur á blaði. Við þekkjum ekki söguna á bakvið en eflaust þar stendur hnífurinn í kúnni. Af hverju stígur enginn fram með eðlilega og greinagóða útskýringu á ofurlaunum þessara manna? Er það kannski af því útskýringin er ekki til?

Ég verð ekki var við neinar útskýringar en heyri um plebbahátt sem bitnar á hugsjónarfólki. Þó flestir eigi í grautinn þá er hugsunarleysið oft dæmalaust hér á landi. Það er er óásættanlegt og við eigum að geta gert betur.

Wednesday, August 02, 2006

Indland: Ranga upplifunin

Ég gat endalaust fabúlerað yfir vestrænum ferðamönnum sem voru bara að upplifa Indland í botn. Fólk að setja sig í hippalegar stellingar, var ekki óalgeng sjón. Það vildi upplifa eitthvað, hvort sem það voru litirnir, klæðnaðurinn, trúin, margmegðin, heilugu kýrnar og svona má lengi telja. Einhverra hluta vegna var ég ótrulega jarðbundinn til að byrja með. Var líka pínulítið hræddur við þetta allt. Að ferðast talaði hreinlega ekki til mín í fyrstu. Engu að síður áhugavert en upplifunin lét á sér standa. Fannst ég ekki búa yfir tilheyrandi dýpt né skilning á aðstæðum. Leið alltaf eins og ég væri að horfa á sjónvarp.

Þegar við byrjuðum á arkitektanemanámskeiðinu sem ég var á, fólst fyrsta verkefni okkar á að útskýra upplifun okkar á Indlandi. Flestir upplifðu landið í botn, allavega samkvæmt myndum þeirra og frásögnum. Upplifun þeirra var gríðarlega jákvæð. Talað var um brosandi fátæklinga, en prófessorarnir höfðu einmitt tekið okkur í fátækrahverfi þar sem fólk brosti. Þegar ég talaði um upplifun mína æpti stéttaskipting á mig. Utan um öll hverfi voru múrar, til að koma í veg fyrir að mismunandi stéttir blönduðust. Sem vestrænn arkitektanemi velti ég því fyrir mér hvernig þjóðfélagið yrði ef múrarnir hyrfu á brott.

Þessar vangaveltur áttu svo sannarlega ekki uppi á pallborðið hjá prófessorunum. Ég hafði upplifað landið rangt. Þó var það kannski fyrst þarna sem ég fór að upplifa landið og eðli Indverja. Menntaðir Indverjar dásumuðu landið sitt. Hver einasti fyrirlesari talaði um "diversity into unity" og áttu þeir þá við mismunandi og fjölbreytilega menningu í samfélagi sem stæði saman. Allir komu með eitt og sama dæmið, indverskur diskur þar sem mögulegt var að blanda mismunandi matartegundum saman á fjölbreyttan hátt. Á meðan voru evrópskir diskar aðeins með einn rétt í einu.

Enginn þessara prófessora setti neitt út á viðvarandi stéttakerfi eða reyndi að koma með hugmyndir um hvernig væri unt að afnema það. Þegar þeir voru spurðir út í viðvarandi aðgerðaleysi komu oft undarleg svör þar sem þeir vörðu sig með mismunandi menningarheima-klisjunni. Gott dæmi var einn skeggjaður prófessor sem lét nágranna sína pirra sig af því þeir borðuðu fisk en sjálfur var hann grænmetisæta. Þrátt fyrir þennan rosalega ósóma sagðist hann samt vera reiðubúinn að skutla syni þeirra á spítala ef bráð veikindi kæmu upp. Þetta var í hans huga einstakt dæmi um samúð og samstöðu Indverja.

Annar prófessor var þó með tromp í erminni þegar hann talaði um lifnaðarhætti Indverja. Hafði þar mikinn skilning og dýpt sem er auðvitað gott mál. Hann gat þó ekki fyrir nokkra muni skilið hvernig fólk gæti búið á Íslandi! Hló svo og hristi hausinn.

Þó var einn arkitekt sem talaði af einhverju viti. Hann hét Doshi og var stofnandi teiknistofunnar sem stóð fyrir námskeiðinu. Hann hafði verið náinn aðstoðarmaður LeCorbusier, einum merkasta arkitekt síðustu aldar, og fyrir vikið orðið fyrir jákvæðum áhrifum frá Evrópu. Þarna vottaði fyrir skapandi hugsunarhætti og framtíðarsýn fyrir Indland. í kjölfarið var hann tekinn í guðatölu af hinum prófessorunum. Allir í kringum hann virtust hætta að hugsa og létu hann um stóru pælingarnar, í stað þess að þróa oft góðar hugmyndir hans með gagnrýnum augum.

Hugarfar menntaðra Indverja olli mér því vonbrigðum. Gagnrýnin hugsun, líkt og tíðkast í Danmörku, skortir. Þetta bil, milli menntunar og gagnrýnnar hugsunar, er eflaust eitt af stærstu vandamálum Indlands.