Ítalía og Ísland
10 daga námsferð til eins flottasta lands Evrópu lauk í gær. Rauðvín, ostar og ólífur, pasta og parmaskinka, arkitektúr og hönnun. Ítalir eru heimsmeistarar í þessu öllu ásamt mörgu öðru. Er andlega endurnærður eftir frábært ferðalag í rótgrónni, ítalskri menningu.
Íslenska hjartað tók þó kipp þegar fáninn okkar sýndi sig á jakka einum. Eigandi jakkans, miðasali í rútu, hafði komið til Íslands og sá ekki sólina fyrir fallega landinu okkar. Mikill heiður að manneskja frá jafn mögnuðu landi og Ítalíu skyldi bera land okkar augum. Eftir að viðkomandi hafði tekið sér góðan tíma í að heillast yfir Íslandi tók þó annað verra við. Virkjunin, bölvuð virkjunin. Á ensku með ítölskum hreim var sagt: “Af hverju? Af hverju? Af hverju?” Þarna var maður sem sagt skammaður. Kem nefnilega frá landi með ríkisstjórn sem hugsar ekki langt, ef hún hugsar. Kann einungis að verða manni til skammar í útlöndum.
Áður en Ítalinn hafði farið að skamma mig hafði hann sýnt mér myndir frá Íslandi. Á “desktopinu” var mynd af Lækjartorgi. Magnað að vera umvafinn menningararfi í fallegu Flórens á meðan græna kebabhúsið, litli arfurinn okkar, stendur í björtum logum. Já, þetta er synd. Útlistanir Egils Helgasonar á stöðu mála er þó ekki til að bæta úr skák og enn síður athugasemdir allra meðfylgjandi kverólanta á umræðuvef í kjölfarið. Skoðanir þessar eru ekki bara hrokafullar og niðurdrepandi, einnig mjög hugmyndalausar. Það sem átti sér stað í þessum húsum var hluti af íslenskri menningu og um leið rammi um daglegt líf fjölda fólks. Pulsurnar í Ungfrú Reykjavík voru þó greinilega ekki nógu fínar fyrir heimsborgarann Egil.
Nú er þó um að gera að horfa fram á veginn. Tilvalið væri að efna til opinnar arkitektasamkeppni um hvað eigi að gera í stöðunni. Hvernig er hægt að lífga upp á torgið og hugsa það upp á nýtt? Á að endurreisa húsin í sömu mynd eða byggja ný? Hvaða/Hvernig sögu á að varðveita og hvernig er slíkt gert? Þessar og fjölmargar fleiri spurningum væri unt að fá svar við í slíkri samkeppni. Ennfremur væri unt að draga skoðanir almennings inn í myndina. Tillögur gætu þannig verið til sýnis í ráðhúsinu þar sem fólk gæti komið og kosið um bestu tillöguna og gert grein fyrir skoðun sinni á kjörseðlinum. Um leið væri dómnefnd sem ynni eftir hefðbundnum samkeppnisreglum. Með þessu móti væri unt að koma af stað umræðu sem risti dýpra en gengur og gerist á íslenskum vefmiðlum.
Fallegur arkitektúr og hugmyndaauðgi í matargerð er einkennandi fyrir Ítalíu. Það eru engu líkara en einhvers konar djúpstæður sköpunarmáttur búi í menningu þeirra.Glöggt er þó gests augað, ítalska augað getur á sama hátt séð allt það góða á Íslandi. Það virðir það sem er/var á Lækjartorgi og gleðst yfir því, í stað þess að álíta það púkalegt eins og áðurnefndur Egill Helgason. Ísland verður aldrei Ítalía og heldur engin þörf á því. Ef Íslendingar færu að temja sér meiri sköpunargleði á kostnað skoðunargleði, eru góðar líkur á að menningin haldi áfram að blómstra.
3 Comments:
Flottur pistill! Egill Helgason er nú meiri heimsborgarinn. En hvað finnst þér um hugmyndir Hrafns Gunnlaugsonar?
May 3, 2007 at 2:02:00 PM GMT+2
Flottur pistill! Egill Helgason er nú meiri heimsborgarinn. En hvað finnst þér um hugmyndir Hrafns Gunnlaugsonar?
jói
May 3, 2007 at 2:03:00 PM GMT+2
Sæll Jói!
Ég hafði satt best að segja ekki heyrt af þessum hugmyndum hans fyrr en núna. Gott að þú bentir mér á þetta. Ég fór strax a google og fann greinina og umfjallanir á moggabloggum.
Það er alveg satt sem hann segir, þetta með að vera ekki að velta sér upp úr fortíðinni. Hugmyndin um háhýsið er hinsvegar nokkuð dræm, hvort sem hún er hugsuð sem "abstraktion" á aðstæðum í dag eða sem raunhæfur valkostur.
Myndrænt séð er hugmyndin afar slæm. Bygging þessi yrði mikið lýti fyrir borgarmyndina. Svo er hægt að finna mörg praktísk rök gegn byggingunni sem ég bara nenni ekki að fara út í.
Ef þessu er kastað fram sem framtíðarsýn um Reykjavík, þá eru þetta líka slæmar pælingar. Vill hann að Reykjavík sé stórborg? Af hverju á Reykjavík að vera stórborg? Má hún ekki bara vera hún sjálf?
Ég get ekki betur séð en hann kasti hugmyndinni fram til þess eins að vekja athygli á sjálfum sér. Í kjölfarið fer það ómótstæðilega í taugarnar á mér þegar fólk á þessum moggabloggum apa vitleysuna upp eftir honum og hylla hann sem einhvern mann hugmyndanna. Þvílík vitleysa.
May 3, 2007 at 8:09:00 PM GMT+2
Post a Comment
<< Home