Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, June 07, 2010

Samhengi hlutanna - 2. hluti

Nú er komið að öðrum hluta þrautarinnar um samhengi hlutanna. Til glöggvunar getur verið gott að skoða þær athugasemdir sem komnar eru í þrautinni hér. Vindum okkur þó í myndina. Eins og sjá má hefur kubbunum verið gefið notagildi:
1) Bensínstöð
2) Ísbúð
3) Gróðurhús

Hvaða kubbur passar núna best inn í eyðuna? Þið getið skrifað svarið í athugasemdakerfið að neðan með smá rökstuðningi.

Thursday, May 20, 2010

Samhengi hlutanna

Þar sem þetta blog hefur legið í nokkrum dvala að undanförnu langar mig nú til að endurvekja það, þó með breyttu sniði. Áhersla er nú lögð á svokallaðar arkitektónískar getraunir sem ég tel að geti verið nýr vinkill á umræðu um arkitektúr og skipulagsmál hér á landi. Ég hef einu sinni prófað getraun af þessu tagi fyrir nokkrum árum á blogginu sem má sjá hér. Eins og sjá má kom nokkuð af skemmtilegum athugasemdum og er það von mín að svo verði áfram nú.

Samhengi hlutanna er viðfangsefni fyrstu getraunarinnar. Skoðið myndina vel hér að neðan. Til að sjá hana stærri er hægt að smella á myndina. Komið svo með ykkar svar um hvaða kubbur passar best í eyðuna. Þið getið skrifað svarið í athugasemdakerfið að neðan með smá rökstuðningi.

Wednesday, July 08, 2009

Íþróttahornið

Það kemur fyrir að ég detti á KR-leiki í Frostaskjólinu og um daginn var það KR-Breiðablik. Lúmskur fótboltaáhugi en líka eitthvað meira en það. Það er svo afslappandi að fylgjast með leik, vitandi að þeir breyta ekki gangi himintunglanna – eða setja þjóðina á hausinn með einu sjálfsmarki. Það er líka sama hversu allt gengur ógeðslega illa. Fréttatímarnir enda alltaf á íþróttafréttum. Eftir hatdræma kreppufrétt kemur íþróttafrétt frá Árbæ. Fylkir rétt marði Keflavík en FH heldur toppsæti deildarinnar.

Hef mikið velt þessu fyrir mér með íþróttafréttir. Svona hundómerkilegar en samt svo mikilvægar. Af hverju? Jú, sjáum til. Eftir hverja einustu íþróttafrétt byrja dagdraumar. Ég er frægur atvinnumaður í knattspyrnu með engar fjárhagslegar áhyggjur. Arkitektinn á miðjunni hjá Liverpool og fyrirliði íslenska landsliðsins sem vegna snerpu minnar, innsæis og úthalds er komið í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins. Á sama augnabliki og ég skora sigurmarkið er Icesave gleymt og grafið.

Þegar líður á leik KR og Breiðabliks fer að gæta fyrir nokkru óöryggi hjá hinum unga bakverði KR-inga hægra megin. Hann er líklega ekki að upplifa dagdrauma sína inni á vellinum þar sem honum er bölvað, af eigin stuðningsmönnum, í sand og ösku þrátt fyrir aðeins tvær feilsendingar. Ég velti því fyrir mér hvernig mér sjáflum mynda reiða af í þessari stöðu og hvar raunverulegir fótboltahæfileikar mínir liggja miðað við leikmennina á vellinum. Næði ég að koma einhverri sendingu áleiðis eða myndi ég bara sparka af öllu afli í boltann til að hreinsa frá?

Svo koma dagdraumarnir aftur. Atvinnumennskan. Frægðin. Heimsmeistaramótið. Allur pakkinn. Þá kemur allt í einu annað sjónarhorn á hlutina. Það hefði verið erfitt að samræma atvinnumennskuna með arkitektaskólanum. Hefði ég þá verið í fjarnámi við Arkitektaskólann í Árósum en búið í Liverpool? Hvað hefði þá orðið um Blade Runner kvöldin (myndin er jú til í 8 útgáfum) með útlensku vinum mínum Mads, Magnus, Jacob og Niels?

Þegar stórbrotnir dagdraumar ná ekki að slá út aðstæður mínar í dag, atvinnuleysið, þá er maður staddur á mjög réttri hillu. Það nægir mér að fara á KR-leikina og lifa augnablikið 3-2 í uppbótartíma gegn Breiðablik, þó að FH sé eiginlega að fara að taka titilinn. Ég vona svo sannarlega að fleiri en ég hafi þetta svona. Íþróttafréttir í lok hvers fréttatíma er góð leið út úr kreppunni.

Friday, June 19, 2009

Dagurinn í dag

Fínn dagur. Byrjaði á að leigja mér stóra vinnuvél til að eyðileggja húsið sem ég bjó í. Það var nefnilega tekið af mér af bankanum sem mér fannst mjög óréttlátt. Bankahrunið var nefnilega hryðjuverk og þá skemmdi ég bara á móti. Þetta var allt mjög rökrétt og siðlegt.

Svo leit ég við á þinginu. Þegar ég hafði lokið mér af við að rífast og skammast yfir græna herberginu sem við eigum með réttu, varpaði ég nokkrum góðum fúkyrðum á ríkisstjórnina. Já, það er mikilvægt að vera með eins og nokkra útúrsnúninga og leiðindi á þingi. Ég er jú nefnilega þessir nýir tímar og vil innleiða nýjar áherslur á alþingi. Samt voru einhverjir að tala um að nú væri tími til að standa eitthvað saman en ég held að það sé reginmisskilningur og tel satt best að segja að það stefni þjóðinni í hættu.

Um eftirmiðdaginn hækkaði ég svo leiguna á Mál og menningu og svældi þau þannig út. Ég var jú í góðri aðstöðu til að gera þetta þar sem ríkið á núna búðina. Einhverjir urðu samt fúlir sem ég skil ekki alveg. Töluðu um menningarlegt gildi og samfélagslega ábyrgð. Ég skil ekki þessi orð, enda hef ég aldrei lesið bók. Ég skil það þó eitt að í 18 ár var mér kennt að frelsi einstaklingsins væri mikilvægast.

Annars er ég ótrúlega sáttur með nýja lífræna moltukassann í garðinum. Hjólaði heim í miklum spenningi til að sjá hvernig gengi.

Thursday, June 11, 2009

Enn ein Icesave blogfærslan

Ég er orðinn þreyttur á talinu um Icesave. Þetta er alveg hundleiðinlegt tal. Svo skil ég ekki alveg mótmælin sem snúa að þessum reikningum. Af hverju er t.d. ekki mótmælt fyrir utan breska sendiráðið frekar en alþingi? Við vitum öll að það eru bresk stjórnvöld sem eru að kúga okkur.

Svo er ég líka orðinn þreyttur á málflutningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem þykist vita allt. Veit hvernig á að semja og veit manna mest um efnahagsmál. Ég held að hann viti ekkert um hvað hann er að tala og get rökstutt það með gamalli blogfærslu minni. Hann telur sig nefnilega líka vera skipulagsgúru ríkissins. Við sem erum menntuð í arkitektúr og skipulagi vitum það eitt, að meira að segja við vitum ekki allt í þessum efnum. Þetta eru einfaldlega flókin fræði. Við vitum það þó eitt, að hann veit ekki neitt.

Nóg um hann og aftur að leiðinlegu Icesave tali. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að borga þetta. Þetta er okkar erfðasynd-stóridómur sem ekki er hægt að flýja. Held að það séu einhver ytri alheimsöfl sem séu nefnilega að sekta íslenskt samfélag fyrir firringu þess og eigingirni. Flestum fannst jú útrásarbylgjan vera flott og gagnrýndu hana ekki. Fólk gerði það sem því sýndist og fannst það sjálfsagt. Einstaklinsfrelsi hét það. Stofnun Icesave-reikninganna ráku svo endanlega smiðshöggið í „ég geri það sem mér sýnist“- hugsunarháttinn.

Reyndar er svo hægt að tala um okkur hin sem gagnrýndu allt. En við gerðum einfaldlega ekki nóg. Gagnrýni af minni hálfu náði t.d. aldrei lengra en í tal og einstakar blogfærslur. Alheimsöflin eru líka að sekta okkur.

Það er þó óréttlát að við skulum þurfa að borga. Bretar gerðu líka misstök og ættu að vera í þessu með okkur. Óréttlætið er þó afstætt. Miðað við allt óréttlæti heimsins eru þessar Icesave skuldbindingar ekki það versta. Það er t.d. mjög óréttlát hvernig komið er fyrir 3. heiminum – þökk sé okkur vesturlandabúum. „Ég geri það sem mér sýnist“- hugsunarhátturinn pældi t.d. mjög lítið í þessu óréttlæti.

Já, við borgum. Reynum svo að læra af þessu. Legg til að þegar við byrjum að borga þá fái hver og einn borgari landsins Icesave-gíróseðil í hverjum mánuði. Seðilinn verður ekki hægt að greiða í netbanka heldur verður að fara út í alvöru-banka (hvað sem það nú er) og greiða hann þar. Á leiðinni í bankann (og vonandi hjóla allir eftir sjö ár) getur fólk hugsað sinn gang og spurt sig siðferðislegra spurninga: „Er ég að verða soldið eins og 2007?“ Það er mikilvægt að við gleymum aldrei Icesave og hugsunarhættinum sem lá að baki. Það er kominn tími til að við lærum af sögunni.

Eitt er þó víst. Enginn mun gleyma þessu ævintýralega ljóta Icesave-lógói.

Tuesday, March 03, 2009

Kosningavélar Sjálfstæðisflokksins eru komnar í gang

Arkitekt teiknar heilt hverfi eftir ákveðinni hugmyndafræði. Fólk flytur inn í húsin og líkar í fyrstu vel. Svo kemur á daginn að hlutirnir virka ekki sem skildi, fólk flytur úr húsunum og að lokum er hverfið tómt. Hvort fór úrskeiðis, hugmyndafræðin eða fólkið?

Svarið er augljóst: Hugmyndafræði arkitektsins klikkaði.

Á Íslandi varð bankahrun. Allt er komið í klúður. Sjálfstæðisflokkurinn segir að fólkið klikkaði en ekki hugmyndafræðin.

Ef þú ert sammála, merktu x við d.

Tuesday, October 21, 2008

Krepputal – bara í þetta eina skipti

Talað er um að ýmislegt jákvætt geti komið úr kreppunni og tek ég heils hugar undir þau sjónarmið. Aftur á móti er mikilvægt að átta sig á ýmsum misskilningi áður en haldið er lengra.

Misskilningur númer er 1 er sú orðræða að við séum öll samsek. Í því samhengi er líka talað um að ekki eigi að leita að sökudölgum. Þetta er auðvitað ekki rétt. Það liggur ljóst fyrir hverjir eru sekir og samsekir svo það er alveg óþarfi að hver einasti Íslendingur eyði tíma sínum í að barma sér í hljóði.

Svo er það hræðslan við að missa okkar besta fólk úr landi, með tilheyrandi hugviti og þekkingu. Margir óttast nefnilega að allt bankahugvitið sem til varð í góðærinu fari burt. Erlendur bankastjóri sem sér íslenskt þjóðerni á atvinnuumsókn mun þó eflaust hugsa sig tvisvar um. Alveg er það samt magnað að lærdómurinn sem dreginn er af atburðum síðustu daga sé sá að helsta hugvitið felist í banka- og fjármálastarfsemi.

Mannauður getur nefnilega falist í mörgu öðru, t.d. fólki sem fer í háskóla til að átta sig á heiminum í gegnum fög eins og mannfræði, listasögu, félagsfræði og bókmenntir, svo ég tali nú ekki um vísindagreinarnar. Það er mun mikilvægara að þekking sem tengist menningu og náttúru verði áfram til staðar. Sú þekking mun seint glatast þar sem Ísland er bara gríðarlega áhugavert land.

Mannauður getur líka falist í almennri rökhyggju og dómgreind, samfélagsvitund og siðgæði. Trú á mannauð, einungis í formi bankagreindar og arðsemisvitundar ber vott um andlegt gjaldþrot.

Að lokum er svo misskilningurinn um að fara þurfi í einhvers konar ímyndarherferð til að bæta orðspor landsins út á við. Enginn veit þó hvað á að gera í nýju endurbættu Íslandi. Þetta væri svipað því að arkitekt teiknaði allar framhliðar byggingar, með gluggum og tilheyrandi, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um starfsemina.

Ísland þarf hægt og rólega að finna út hvað það vill og hvernig það vill vera. Ímyndarherferð breytir ekki orðsporinu í einum hvelli. Þjóðin gerir það sjálf. Til dæmis með því að mæta á Austurvöll og mótmæla andleysi stjórnvalda sem leyfa vanhæfum seðlabankastjóra að sitja áfram. Sökudólgana verður að draga til ábyrgðar því ef það er ekki gert mun umheimurinn sjá mynd af þjóð sem lætur einstaka aðila vaða yfir sig á skítugum skónum. Sjáum til þess að svo verði ekki.

Wednesday, September 24, 2008

Ef þú ert Torfusamtakamaður þá hættu að lesa hér... nei haltu EINMITT áfram að lesa

Vinningstillagan úr samkeppni um nýjan listaháskóla hefur verið nokkuð á milli tannanna á fólki, ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum. Hörð gagnrýni hefur átt sér stað sem snýr þó nánast einungis að varðveislu tveggja húsa en einnig hefur verið gengið svo langt að saka Adept Architecths og + Arkitekta, höfunda tillögunnar, um að stela hugmyndinni frá öðrum arkitekt. Minna hefur borið á jákvæðri umfjöllun og virðast fjölmiðlar gera lítið í því að reyna að skilja tillöguna og þær forsendur sem liggja þar að baki.

Verkefnið fólst í stuttu máli í að koma starfsemi LHÍ fyrir á sem bestan hátt á byggingarreitnum og þannig stuðla að fjölbreyttara mannlífi í miðbænum. Þættir eins og varveitt götumynd og fagurfræðileg útfærsla á úthliðum byggingar skiptu að sjálfsögðu líka miklu máli. Það sem vegur þó þyngst í lausn verkefnis að þessu tagi er hvernig byggingunni tekst að bjóða almenningi inn fyrir, án þess þó að það trufli meginstarfsemi skólans og hvernig byggingin getur skilað hugarflugi listnema út í samfélagið og nánasta umhverfi.

Á laugardaginn fyrir viku fór ég á kynningu á vinningstillögunni sem haldin var í Regnboganum. Það lék ekki nokkur vafi á að hér væri ljómandi gott og skemmtilegt verkefni á ferðinni. Fyrir það fyrsta var afstaða til umhverfis og gamalla húsa á reitnum mjög skýr og vel ígrunduð. Tvö hús munu fara og í staðinn myndast rúmgott torg og þægileg aðkoma inn í byggingu. Ennfremur fær eitt hús að vera áfram þar sem starfrækt verður kaffihús sem snýr að torginu. Eftirsjá verður af “Vínberinu” en erfitt reyndist að vinna með það inn í tillöguna vegna byggingarlag þess húss.

Kassalaga uppbygging hússins var einnig vel ígrunduð með tilliti til umhverfis, eins og sjá má á myndbandi á heimasíðu LHÍ. Unnið er með stærðarhlutföll úr nánasta umhverfi en jafnframt eru skörp skil á milli þess hvar umhverfið endar og Listaháskólinn byrjar. Kassar með munstri, í ætt við íslenskan vefnað, eru skemmtilegir og bera vott um sköpunargleði höfunda og er ekkert nema gott um það að segja. Kassahugmyndin nýtur sýn svo sérstaklega vel í dramatísku umhverfi Hverfisgötunnar en á sama hátt getur maður spurt sig hvort sú hlið er snýr að Laugarvegi hefði ekki mátt vera aðeins fínlegri til að auka á dramatíkina og andstæðurnar í útliti hússins. Þar sem kassarnir eru gegnumgangandi alls staðar í byggingunni verða skörp skil á milli vinnustofa sem getur verið ókostur í starfsemi sem þessari.

Engu að síður mynda kassarnir meiraháttar spennandi ramma utan um starfsemi skólans, þar sem nemendum gefst kostur á að fylla inn í rammana með verkum sínum og hugmyndum og verða þannig sjálfir hönnuðir að úthliðum byggingarinnar. Þessi sterku tengsl á milli útlits og starfsemi er vafalaust einn stærsti kostur tillögunnar og gefur góð fyrirheit um það sem koma skal.

Mótbárur gagnvart tillögunni hafa verið ósanngjarnar og illa ígrunndaðar. Það sem er ámælisvert í þessari gagnrýni er skilningsleysi gagnvart mikilvægi þess að skapa líf í miðbænum. Það er vissulega rétt að bárujárnshús eru falleg dæmi um íslenska byggingararfleið. Í Þingholtunum eru fjölmörg dæmi um þessi hús en þarf þá að varðveita hvert eitt og einasta þeirra á Laugarveginum? Stórir búðargluggar á Laugarvegi segja sína sögu um samfélgið og þróun þess á síðustu öld. Er það einhver ómerkilegri saga sem ekki á að varðveita? Er alveg örugglega betra að byggja listaháskóla í 19. aldar stíl með tilheyrandi litlum gluggum á meðan stórir gluggar í nýrri byggingu henta starfseminni og tengingu hennar við umhverfið og mannlífið betur? Er ekki eflaust betra að spyrja sig nokkurra spurninga og kynna sér málin, áður en leggja á stað með áróður gagnvart velheppnaðri vinningstillögu?

Monday, June 02, 2008

Bíódagar

Um daginn fórum við við Björn bróðir að sjá myndina Indiana Jones. Myndin var ágæt en Háskólabíó olli vonbrigðum. Gríðarlegum vonbrigðum alveg hreint. Skoðum málin.

Búið er að færa miðasöluna til, svo nú er í raun gengið inn bakdyramegin í bíóið. Mér leið svolítið eins og ég ætti að skammast mín þegar ég fór inn. Vanalega hefur verið gengið inn um aðalinngang byggingarinnar. Byggingin sem slík hefur nefnilega afskaplega flotta aðkomu, með glæsilegri lýsingu sem undirstrikar gildi þess að fara á virðulega kvikmyndasýningu. Nú er þó raunin önnur.

Þegar búið er að kaupa sér miða, fyrir litlar 1000 krónur, þá fær maður í hendurnar bíómiða á formi undirskriftarstrimils. Þetta er ekki miði sem hægt er að rífa af, þess í stað lítur illa tilhafður unglingur áhugalaus í átt að miðanum. Svo er komið inn í rýmið á undan kvikmyndasalnum sem er álíka aðlaðandi og biðrýmið á BSÍ (altsvo rútubílastöðin í Reykjavík). Uppi um alla veggi eru plaköt af væntanlegum myndum sem undirstrika mikla deyfð í íslenskri bíómenningu um þessar mundir.

Svo er myndin sýnd, þó ekki í stóra salnum eins og í gamla daga. Myndin virtist ætla að ganga þokkalega í gegn, þangað til það fór að bera á hljóðtruflunum. Hljóðið datt út nokkrum sinnum í mesta hasarnum. Það er óásættanlegt. Ég minni á á bíómiðinn kostar 1000 krónur.

Það er fátt eins sorglegt en að horfa upp á góða hluti daga upp í íslenskri meðalmennsku. Ástæða þessarar hnignunar kvikmyndahúsa-menningar má líklega rekja til markaðsaflanna. Sami eigandi á svo til öll kvikmyndahús landsins. Fyrir vikið er stefnt að hámarks arði. Það er sparað og sparað, en líka okrað og okrað. Nú nenni ég ekki að hlusta á unga frjálshyggjupúkann sem segir að þetta sé það sem markaðurinn vilji. Það er ekkert eðlislægt manneskjunni að vilja upplifa hnignun siðmenningar.

Sunday, May 04, 2008

Fegurð og Reykjavík

Í kreppunni okkar er Davíð Oddsson ekkert að fara á kostum sem seðlabankastjóri. Sem forsætisráðherra átti hann bæði góða daga og vonda en sem borgarstjóri var hann nokkuð sprækur. Í hans tíð urðu til byggingar eins og Perlan, Ráðhúsið og dómshús Hæstaréttar. Honum fannst bárujárnshúsin við Bergþórugötuna falleg, en hafði engu að síður trú á að nýjar byggingar gætu fallið vel inn í borgarmyndina.

Í kreppunni þessa dagana gengur einhver skipulagshagfræðingur um götur borgarinnar og reiknar út hvort borgin sé falleg eða ljót. Hagfræðingurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur reiknað það út að borgin sé ljót og það sama gildi um Prag í Tékklandi. Þetta hélt hann fram í Silfri Egils um daginn þar sem hann fékk nokkurs konar drottingarviðtal með tilheyrandi hlátri frá skottulækningablaðamanninum, Agli Helgasyni.

Það væri leikur einn að koma með mótrök gegn öllu því sem kom fram í þessu viðtali. Þarna var nánast ekkert sagt að viti. Ætla þó rétt aðeins að fara út í stærstu mótsagnirnar. Sigmundi finnst að arkitektar eigi nú að hlusta eftir markaðslögmálunum,teikna byggingar í klassískum stíl og þannig leggja sitt að mörkum til að bjarga húsnæðismarkaðinum. Það sem hann þó ekki sér er að mörg hús sem byggð hafa verið að undanförnu lúta öllum markaðslögmálum. Til að spara sem mest er litlum sem engum fjármunum varið í hönnunarkostnað. Hús á að vera fljótlegt og auðvelt í byggingu. Þannig fá verktakar meira fyrir sinn snúð og geta talað um arðsemi bygginga sinna.

Það sem er þó hvað leiðinlegast í allri umræðunni er sú tíska að tala um Reykjavík sem ljóta borg. Hér er á ferðinni einhver misskilinn töffaraháttur, svipað því þegar unglingum finnst foreldrar sínir geðveikt hallærislegir. Hvorki Egill né Sigmundur eru þó unglingar. Þetta eru fullorðnir menn sem eiga að vera í stakk búnir til að sjá að neikvæður útgangspunktur, í sérhverri umræðu, leiðir aldrei til neins góðs.

Reykjavík er mjög falleg borg. Aftur á móti er hún ekki falleg alls staðar. Þrátt fyrir það er óþarfi að einblína einungis á það sem miður fer. Betra væri að skoða það góða í gömlum og nýjum arkitektur, reyna að átta sig á hvað gerir það gott og draga lærdóm af því. Fyrst þá verður til grundvöllur fyrir hugsandi umræðu um skipulagsmál á Reykjavíkursvæðinu.

Friday, February 22, 2008

Lokaverkefnið: Íslenskt fjölskyldusetur

Hef lengi æltað að blogga um lokaverkefnið en hef verið upptekinn við annað. Á þennan link hér er hægð að sjá brot úr verkefninu á heimasíðu arkitektaskólans. Til að sjá myndirnar stærri er hægt að klikka á þær. Textinn útskýrir verkefnið í megindráttum og mun ég þess vegna ekki útskýra verkefnið sjálft í þessari færslu. Mun frekar koma inn á forsendur verkefnisins, ferli þess og almennar vangaveltur.

Verkefnið heitir: “Et islandsk familiested – mødet mellem det menneskeskabte og naturen”

Í verkefninu vann ég með landskika sem ég og einn frændi minn munum erfa af ömmu okkar. Landið er í Ölfusi, sunnan við Ingólfsfjall og þjóðveg nr. 1. Á landinu var eitt sinn lítill kofi en annars var þetta auður melur. Með tímanum var svo veittur lækur inn á landið og trjám var plantað til að skerma á móti sterkum norðanvindi.

Á svæðinu í kring eru nokkrir litlir sumarbústaðir. Flestir þeirra líta þó frekar fátæklega út þar sem lítið er gert til að halda þeim við og nútímavæða þá. Þeir hafa færstir hverjir rafmagn eða heitt vatn og eru blessunarlega lausir við heita, ameríska nuddpotta. Sömuleiðis er lítið gert til að halda gróðri í skefjum. Þessi vanræksla á gróðri og húsum gefur svæðinu þó dulúðarfulla stemningu. Svæðið er á vissan hátt eins og hús gamallar konu sem öll börnin í hverfinu eru hrædd við (eins og í myndinni “Stand by me” að mig minnir).

Hafði gengið með þetta verkefnaval lengi í maganum, allt síðan ég var að ferðast á Indlandi fyrir tveimur árum. Það sem gerði verkefnavalið spennandi var að hafa þennan landskika þar sem ég gæti í fljótu bragði gert hvað sem er, þar sem ég var eigandi landsins. Með verkefninu gat ég virkilega spurt sjálfan mig hvað ég eiginlega vildi með arkitektúr?

Fljótlega var þó eitt af markmiðum verkefnisins að stúdera íslenska arkitektasögu, frá landnámi til dagsins í dag, til að átta sig á hvað væri einkennandi fyrir íslenska byggingararfleið. Ennfremur var það veigamikill þáttur að átta sig á íslenskri sumarbústaðarmenningu, þar sem landskikin var skilgreindur sem sumarbústaðarland.

Verkefnið gékk svo í stuttu máli út á að þróa stað fyrir íslenska fjölskyldu yfir langan tíma. Lesið nánar á heimasíðunni hér.

Eitt af því sem heillaði mig hvað mest við tilhugsunina um fjölskyldustað var hvernig mismunandi kynslóðir gátu séð sama staðinn á mismunandi hátt. Sterk upplifun frá ættarmóti einu, þar sem gömul kona sagði frá heimkynnum sínum. Á meðan hún mundi hvernig allt var áður fyrr þá urðum við, yngri kynslóðin, að ímynda okkur fortíðina út frá frásögn hennar og hvernig við sáum staðinn með okkar eigin augum í dag. Frásagnir gömlu konunnar af einhvers konar gjörningi, eins og að hlaða upp steinum sem enn standa í dag, gaf staðnum gildi fyrir hvern og einn.

Verkefnið sýndi fram á nokkurs konar nýja hugmynd að sumarbústaðarlandi. Allt landið er tekið með inn í myndina á löngu tímabili, í stað þess að planta byggingu, með nuddpotti og gasgrilli, einhvern veginn í landslagið, eins og algengt er í dag. Það er gjarnan talað um að vernda eigi lítil hús á Laugavegi, á sama tíma og íslenskt landslag á undir högg að sækja gagnvart fyrirferðarmiklum og þéttum sumarbústaðarhverfum.

Vona að lesendur hafi áttað sig á verkefninu. Ef ekki, þá endilega að varpa fram spurningum.

Friday, February 01, 2008

Gamalt og nýtt

Á fimmtudaginn í síðustu viku litu hlutirnir ekki vel út fyrir Íslendinga. Handboltalandsliðið olli vonbrigðum og borgarstjórnin í Reykjavík var Íslendingum til skammar. Það sem þjóðin þó ekki vissi var að hún hafði eignast nýjan arkitekt þennan sama dag sem var enginn annar en ég. Fyrsta vikan í fullorðinna manna tölu hefur vægast sagt verið góð. Á næstu dögum verður nánar greint frá lokaverkefninu hér á blogginu. Fyrst er það mál málanna, friðun gamalla húsa við Laugaveg.

Ólíkt mörgum Íslendingum hef ég tekið mér langan tíma í að mynda mér skoðun á málinu, það er jú ekki allt sem sýnist. Í stuttu máli voru áður ófriðuð hús friðuð, síðar voru þau aftur ófriðuð í kjölfar þess að borgin keypti þau, reyndar ekki með aflsætti, svo þau yrðu endurgerð. Lítum á málið frá byrjun.

Húsafriðunarnefnd endurskoðar afstöðu sína til þessara húsa. Það er í sjálfu sér ekki gagnrýnisvert þar sem viss vitundarvakning hefur átt sér stað síðari ár hvað varðar íslenska borgarmenningu og umhverfi. Það sem vantaði í þessu samhengi var skýr hugmyndafræðileg sýn á friðun almennt og það sem koma skal í þessum málum í framtíðinni.

Stærsta spurningin er þó eflaust sú, hvort rétt sé að friða þessi hús? Á vefritinu um daginn las ég áhugaverðan pistil þar sem gömlu húsunum var líkt við handritasafn Árna Magnússonar. Árni safnaði hverju einasta handriti, ekkert var of ómerkilegt til að vera með í þessu safni. Allt safnið, “drasl” eða fagurbókmenntir, myndaði eina heild sem bæri að varðveita. Á sama hátt ætti að varðveita allt gamalt á Laugaveginum þar sem þetta gamla myndar svipaða heild og handritasafnið.

Þessi líking er á vissan hátt mjög samúðarfull og falleg. Handrit og byggingar eru þó í eðli sínu tvennt ólíkt. Handritin eru upplýsingar um líf fólks, áður fyrr, á meðan byggingar eru rammi um líf fólks, nú í dag. Starf arkitekta felst í að gera þennan ramma sem mest lifandi og auka þannig vellíðan fólks í daglegru lífi. Friðun gamalla húsa, götumynda og umhverfis, getur gegnt veigamiklu hlutverki í að skapa þennan ramma. Sögulegt umhverfi getur göfgað andann og skapað þannig vellíðan. Það sem vill þó gleymast er að fallegt nýtt umhverfi getur gert það sama, sérstaklega ef það er í góðu jafnvægi við það gamla.

Ef það verður stefna borgarinnar að endurgera öll gömul hús í upprunalegri mynd, hversu langt á þá að ganga? Verður það ekki til að ýta enn meira undir glundroðan sem nú er á Laugaveginum eða mun þá jafnvel enda með að öll hús frá 20. öldinni verði rifin og húsin sem stóðu þar áður, byggð í staðinn? Getum við kannski í framhaldinu byggt Disneyland í eitt af nýju úthverfunum og farið þannig alla leið í tálsýninni?

Samt sem áður er nokkuð ljóst að gefin hefur verið heimild fyrir of mörgum niðurrifum á sínum tíma og þess vegna mikilvægt að endurskoða málin að svo stöddu. Til dæmis skýtur það skökku við að leyfa niðurrif á húsum eins og þar sem skemmtistaðurinn Sirkus hefur aðsetur. Þar er svo sannarlega menning og líf á ferð sem vert er að varðveita. Það er nefnilega fyrst og fremst mikilvægt að varðveita það líf sem Laugavegurinn býður upp á í dag og vinna út frá því.

Þetta er ekki flókið en í sömu andrá og maður nefnir þetta við margt fólk á Íslandi fær maður annað hvort svör um að íslenskir arkitektar séu lélegir eða þá að fjarfestar vilji byggja ódýrt með skyndigróða í huga. Ef einhver var í vafa þá eru íslenskir arkitektar mjög góðir. Aftur á móti er margt til í þessu með fjárfestana. Þó eiga sér stað einum of miklar heimsendaspár ef eitthvað nýtt er byggt. Því er svo kastað fram að þetta gamla sé það eina sem “blivar”. Skýrasta dæmið er án efa Torfusamtökin. Markmið samtakanna, að stuðla að betri miðbæ, er að sjálfsögðu frábært. Undirtóninn, að friðun þess gamla bjargi öllu, er þó í alla staði vafasamur og illa ígrundaður. Að eyða allri orku sinni og orku annarra í þessi tvö hús er virkilega gott dæmi um hvernig hægt er að týna sér í smáatriðum.

Það sem vantar er borgarstjórn sem hefur heyrt um orðið framtíðarsýn. Sýn sem fæli meðal annars í sér að blása til samkeppni þar sem heildrænt skipulag á Laugavegi væri rækilega tekið í gegn. Út frá einni verðlaunatillögu yrði unnið deiliskipulag þar sem ekki einungis nýtingarhlutfall kæmi fram, útlit og rými væri sömuleiðis veigamikill þáttur sem fara ætti eftir þegar kæmi að hönnun á byggingarstigi. Undantekningar, vegna tengsla borgarfulltrúa við verktaka, mættu ekki eiga sér stað. Borgarfulltrúar yrðu að vinna fyrir borgina, í stað sinna eigin hagsmuna, þó er það sé nú eflaust bara draumsýn.

Friday, December 21, 2007

Raflínur

Uppi eru hugmyndir um að leggja raflínur niður í jörð, í stað þess að láta þær standa ofan á náttúrunni. Þetta mun kosta ríkissjóð hugsanlega um 300 milljarða, bara til þess eins að fullnægja fagurfræðilegum þörfum lopapeysufólks á fjöllum. Fagurfræðilegar þarfir mínar eru þó aðrar. Hvernig tækni manneskjunnar mætir náttúrunni er gríðarlega magnað. Það verður líka seint sagt að tæknin skyggi á náttúruna í þessu samhengi, í rauninni rammar hún náttúruna inn. Auk þess mun þessi framkvæmd skilja eftir sig ör í landslaginu sem alltaf verður hægt að sjá, sama hversu mikið verður reynt að fegra hlutina. Þess vegna er alveg eins gott að vera heiðarlegur. Við notum rafmagn, það er engin skömm af því og óþarfi að reyna að fela það. Hver segir svo að fagurfræði lopapeysufólksins sé réttari en mín?

Wednesday, December 05, 2007

Gjörningar og samsæri

Hef orðið var við ýmis undur á netheimum þessa dagana. Fyrst má nefna frétt um íslenskan listnema í Kanada sem var með vondan gjörning. Koma fyrir sprengjulíkani á almannafæri í nafni listarinnar er frekar naumt. Hvað varð um þessa listamenn sem unnu hörðum höndum við að móta fígúrur í gips, nú eða bara að mála Herðubreið? Gjörningalist getur verið áhugaverð en hún krefst gríðarlegrar vinnu og útsjónarsemi, eitthvað sem listnemin getur hugsað um í steininum. Stærsta gjörningalistin í þessu tilviki fælist líklegast í því að fá viðkomandi til að viðurkenna fyrir sjálfum sér og umheiminum að hann hefði hlaupið á sig.

Á vefritinu Deiglan.com er allt í einu sprottinn upp nokkurs konar gjörningarithöfundur (takið vel eftir hvernig ég endurhugsa orðið gjörning). Deiglupenni einn tók sig nefnilega til og tók heilt blog, í eigu Sóleyjar Tómasdóttur, úr samhengi. Eftir að hafa verið gagnrýndur í Lesbókinni svaraði hann þeirri grein til baka á þeim nótum að pistillinn hefði í raun ekki átt að vera málefnalegur, heldur var um háð að ræða, falið í vissu stílbrigði. Ennfremur er hann ósáttur við að karlkyns Sjálfstæðismenn séu dregnir í dilka, einungis út frá einni grein.

Líkt og listneminn á deiglupenninn í talsverðum vandræðum með að viðkenna mistök sín. Fyrir það fyrsta getur háð verið notað í málefnalegu samhengi og þá er hægt að ræða um áhugavert stílbrigði. Þarna var háðið þó gagngert notað til að gera lítið úr einni ákveðinni manneskju og í raun einelti á ferðinni. Það er heldur ekki rétt að segja að þetta komi Sjálfstæðismönnum ekkert við. Deiglan lætur jú greinina flakka eins og ekkert sé og enginn af pennum vefritsins gagnrýnir þessa döpru grein.

Út frá vissu sjónarhorni er þó hægt að færa rök fyrir að birting greinarinnar endurspeglu tjáningarfrelsi í hæstu hæðum og Deiglunni leiðist það nú ekki. Afur á móti áskilur hún sér rétt til að birta ekki allar athugasemdir sem birtar eru. Þó leyfir hún birtingu á frekar mannorðsmeiðandi athugasemdum í garð Sóleyjar. Svo er önnur spurning hvort greinin hefði verið birt rétt fyrir kosningar?

Að lokum ætla ég að henda í samsæriskenningu. Í byrjun sumars var skilafrestur í samkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni. Um 140 tillögur bárast frá teiknistofum út um allan heim. Síðar í sumar byrjaði svo Iceland Express að þrýsta á skipulagsyfirvöld ríkis og borgar um að reisa flugstöð í Vatnsmýrinni. Samgöngumálaráðherra fannst það bara allt í lagi hugmynd og spáði ekkert í því að þaulmenntaðir arkitektar út um allan heim sýndu Vatnsmýrinni þennan áhuga.

Um daginn reyndi ég svo að grenslast fyrir um hvort von væri á niðurstöðum úr samkeppninni. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar var þó hvergi minnst á þessa samkeppni og heldur ekki á heimasíðu Arkitektafélags Íslands. Það er sem sagt nokkuð ljóst að samgöngumálaráðherra hefur tekist að hakka sig inn á þessa vefi, eytt út upplýsingum og þaggað keppnina niður. Eftir ca. ár munu Reykvíkingar svo uppgötva risastóra flugstöð, handan við risastóru Hringbrautina. Forstjórastaða hjá flugfélaginu verður svo nýr bankastjórastóll fyrir samgöngumálaráðherrann.