Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, September 29, 2005

Furðulegt?

Það er komið haust þegar frétt eins og þessi http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1160846 kemur fram á sjónarviðið. Ungir sjálfstæðismenn að röfla hvor yfir öðrum. Senda svo út fréttatilkynningu og lýsa yfir furðu sinni! Síðan hvenær er baktjaldamakk orðið eitthvað furðufyrirbæri hjá þessu fólki? Svona lagað er jú orðinn árlegur viðburður. Og hvað ætlar þetta fólk, sem er að gefa út þessa yfirlýsingu, að gera í málunum? Það kemur nákvæmlega ekkert fram um það. Fyrir vikið er svo yfirlýsing gjörsamlega innihaldslaus.

Yfirlýsingin sem slík vekur ekki furðu mína. Frekar það hversu mikið af ungu og efnilegu fólki kastar tíma sínum á glæ með að standa í þessu stappi. Legg til að fólk eyði tíma sínum í að skoða aðeins heiminn. Þarna úti eru furðuverk af ýmsum toga sem eru mun áhugaverðari en þetta furðuverk sem heitir Sjálfstæðisflokkur.

Sunday, September 25, 2005

Institut III

Á 3. ári í arkitektaskólanum velja nemendur sér deild. Í boði eru 5 deildir þar sem hver og ein hefur sínar áherslur. Þær hafa líka nöfn, mín deild heitir á þennan veg: “Insitut III: Arkitektonskt kulturarv”. Nöfn deildanna byrja s.s. á “Institut”, svo koma rómverskir bókstafir og loks faglegt innihald deildarinnar.

Þegar fólk hefur svo valið eitthvað þá eru auðvitað allir að spyrja hvaða deild viðkomandi hafi valið. Svona spurningaralda. Mér tekst, engu að síður, alltaf að klúðra þessum einföldu tjáskiptum. Lítum á dæmi, þýtt yfir á ca. íslensku:

Einhver: “Jæja, á hvaða deild ert þú nú kallinn?”
Ég: “Ég er á kulturarv”
Einhver: “Er það institut III?”
Ég: “Það veit ég ekki?
Einhver: “Nú? Hvaða deild er þetta eiginlega?”
Ég: “Þetta er deild hinna gömlu borga og bygging, þar sem sögulegt og menningarlegt sjónarhorn er tekið fyrir. Hvernig gamalt er hugsað upp á nýtt. Hvað hefur varðveislugildi. Framandi menningarheimar. Þetta fæst deildin í megindráttum við”
Einhver: “Semsagt institut III?”
Ég: “Veit ekki númerið en þetta er allavega kulturarv”
Einhver: “Er þetta kannski institut IV?”

Þegar hér er komið við sögu þarf ég gjarnan allt í einu að fara á klósettið eða bara hlaupa einhvert burt. Þessar númeringar á deildunum vaxa mér einfaldlega um höfuð. Það sem ég heldur ekki skil er hvernig fólk virðist flokka mig og aðra eftir númeri. Er heilinn þeirra allur í tölum, eins og svona þvengskipulagt bókhald? Er þetta kannski þessi “kalanderhyggja” í Dönum sem er alveg að fara með þá?

Þetta er reyndar allt ad koma núna. Ég man að mín deild er númer 3. Þannig að þegar ég er spurður núna þá svara ég bara: “Institut III”. Stundum þarf svo viðkomandi einhverra hluta vegna að hlaupa á klósettið?

Tuesday, September 13, 2005

Hver verður næsta Bríet?

Feministar. Ég styð þær. Þeirra málstaður á tvímælalaust upp á pallborðið. Ýmislegt sem betur mætti fara hvað varðar konur í þjóðfélaginu. Á þá helst við konur á vinnumarkaði. Fórnfýsi kvenna á vinnustað á sér nefnilega oft engin takmörk. Gera miklu meira en þeim er ætlað, án þess þó að græða á því. Taka vinnuna mun meira inn á sig en karlmenn. Kvarta endilega ekki, þó þær ættu að gera það. Yfirmennirnir vita þetta gjarnan en gera þó ekkert í málunum. Út frá hagkvæmnissjónarmiðum er líka óþarfi að gera eitthvað.

En hvað gera feministar landsins? Er eitthvað rætt um þessa sálrænu eiginleika kvenna og áhrif þess á samfélagið? Er það kannski þarna sem rót vandans liggur? Hef allavega ekki tekið eftir umræðu af þessu tagi. Tek meira eftir kvörtunum þeirra vegna komu einhvers rappara til landsins eða fréttamanns sem slær á létta strengi og kallar tvær framakonur ljóskur. Yfir svona geta þær endalaust tuðað og eytt kröftum sínum í vitleysu. Aðalmálið virðist vera að koma með yfirlýsingar á opinberum vettvangi. Eins og þær keppist allar um að verða næsta Bríet Bjarnhéðinsdóttir, í stað þess að hlúa að fórnfúsu vinnukonunni sem eflaust hefur verið meginmarkmið Bríetar.

Hinsvegar er þessi fórnfýsi kvenna huglægt fyrirbæri. Lifum einfaldlega í þjóðfélagi þar sem staðreyndir þurfa að vera til staðar svo unt sé að ræða málin. Þetta sem ég hef varpað fram um fórnfýsina er til að mynda eitthvað sem ég byggi á mínu eigin innsæi og þar af leiðandi getur hver sem er sagt að þetta sé vitleysa í mér.

En ekki er öll nótt úti enn. Til að sannreyna hvort ég hafi rétt fyrir mér væri mögulegt að standa fyrir allsherjar skoðunarkönnun þar sem unt væri að sýna fram á, að konur fórnuðu sér um of fyrir vinnuna. Svona rannsóknir geta auðvitað aldrei komið með fullkomið svar en eru þó oft í áttina. Að minnsta kosti skárri kostur en að varpa endalaust fram yfirlýsingum.

Friday, September 09, 2005

Heimur kvikmyndanna 2: Bergman

Ég gerði svo sannarlega ekki mikið af viti í sumar. Eitt gerði ég þó, sá tvær kvikmyndir eftir Ingmar Bergman. "Persona" var fyrri myndin. Tvímælalaust í hópi langbestu mynda sem ég hef séð. Um myndina er unt að lesa hér: http://www.dec.hi.is/?kvikmyndir/persona. Í byrjun myndarinnar átti ég í athyglisverðri togstreitu við sjálfann mig. Vissi ekki hvort ég ætti að hafa undirtexta með eða ekki. Fannst textinn nefnilega skemma fyrir sjálfu myndefninu. Á hinn bóginn eru samtölin nokkuð djúp og ekki laus við að vera flókin. Þessa vegna var spurning hvort ég skildi sænsku nógu vel til að sleppa undirtextanum.

Hin myndin var “Viskningar och rop”, http://www.dec.hi.is/?kvikmyndir/viskningar_och_rop. Þar gerði ég þau mistök að borða popp í byrjun myndarinnar. Það er algjör stemningsbrjótur. Manni á nefnilega ekki að líða neitt sérstaklega vel þegar horft er á myndina. Betur færi að borða þurrar oblátur. Engu að síður, góð mynd.

Að horfa á svona myndir er ekki endilega góð skemmtun. Þær rista einfaldlega allt of djúpt. Þær eru hafnar yfir munað eins og popp og kók. Stefni á að sökkva mér í fleiri pælingar með Bergman og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.