Getraunin og fleira
Þá eru úrslit kunn í arkitektónísku getrauninni frá því í síðasta mánuði. Fjölmargar góðar útskýringar litu dagsins ljós en allt lékk á suðupunkti í athugasemdakerfinu um tíma. Herra/frú anonymous hljóta 1. innkaup fyrir úskýringu sem skoraði hátt í abstrakt hugsunarhætti. Sá gamli er þó ótvíræður sigurvergari og hlýtur sumarhús, í mælikvarðanum 1:200, að launum.
Já, það er gaman af þessu. Gaman að vera mættur aftur á netið. Er líka mættur til skoðanalandsins Íslands. “Skoðanaáratugurinn” verður fyrirsögn í sögubókum framtíðarinnar. Áratugurinn þar sem skoðanir, sem áður áttu heima í kaffihléum í vinnunni, fengu allt í einu pláss við hliðina á fréttinni. Moggabloggið er þar nokkurs konar hugtak, líkt og vistarbannið er hugtak framar í sögubókinni.
Þegar reynt er að glöggva sig á íslenskri umræðu er manni oft spurn hvort fólk hafi grandskoðað málin áður en það nýtti sér tjáningarfrelsið? Tökum sem dæmi skipulagsumræðu á Selfossi þessa dagana. Í Morgunblaðinu í gær var rætt við nokkra bæjarbúa sem auðvitað allir gagnrýndu nýja miðbæjarskipulagið. Gagnrýnin var þó í allar áttir og eiginlega erfitt að segja að eitt ákveðið atriði hafi verið í ólagi. Í ofanálag var því varpað fram að pólítík lægi að baki ólgunni, þó sumir vildu meina að svo væri ekki.
Öll gagnrýni á rétt á sér og er af hinu góða. Aftur á móti skín það í gegn að fólk hefur ekki kynnt sér málin nægilega vel, set sig inn í skipulagstillöguna eða velt fyrir sér skipulagi almennt. Það er þó ekki hægt að fara fram á að almenningur geti glöggvað sig á teikningum og þess háttar á sama hátt og fagfólk. Samt sem áður er það spurning hvort fólk þurfi alltaf að varpa fram skoðun í einum hvelli? Af hverju ekki að leggjast undir feld eins og sumir gerðu hér um árið? Hvað varð um feldinn?
Komum samt aftur að getrauninni minni. Á enn eftir að útskýra hvað sé nú eiginlega á myndinni. Þetta er sem sagt kassi þar sem komið hefur verið fyrir stóru magni af járni. Þegar staðið er fyrir utan er ekki mögulegt að sjá járnið inni í kassanum. Þegar rignir, ofan í kassann, þá ryðgðar járnið. Rauðlitað ryð-vatn lekur úr litlu opi á kassanum og dreifist yfir malbikið. Malbikið öðlast nýtt gildi, dregur að sér börn að leik og skapar líf. Hvernig við virkjum ímyndunaraflið og sjáum hlutina í nýju ljósi er það sem verkefnið gékk út á í stuttu máli.
Það sem er spennandi með getraunina er að lesendur voru ekki beðnir að mynda sér skoðun á hlutunum, frekar að reyna að ímynda sér hvað væri í gangi. Vandamálið á Selfossi, sem einnig er landlagt vandamál í mörgu öðru, er hvernig hlutirnir hafa verið bornir fram. Nýr miðbær er mælanleg staðreynd. Lítið er gert til þess að fá fólk til að ímynda sér hvernig bærinn muni virka. Leikrit sem útskýrir skipulagið væri þar vænlegra til árangurs. Getraun væri eflaust einnig valkostur. Margt spennandi væri hægt að gera í stöðunni. Sérstaklega ef spilað væri meira inn á ímyndunaraflið og minni orka sett í skoðanir.