Ef þú ert Torfusamtakamaður þá hættu að lesa hér... nei haltu EINMITT áfram að lesa
Vinningstillagan úr samkeppni um nýjan listaháskóla hefur verið nokkuð á milli tannanna á fólki, ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum. Hörð gagnrýni hefur átt sér stað sem snýr þó nánast einungis að varðveislu tveggja húsa en einnig hefur verið gengið svo langt að saka Adept Architecths og + Arkitekta, höfunda tillögunnar, um að stela hugmyndinni frá öðrum arkitekt. Minna hefur borið á jákvæðri umfjöllun og virðast fjölmiðlar gera lítið í því að reyna að skilja tillöguna og þær forsendur sem liggja þar að baki.
Verkefnið fólst í stuttu máli í að koma starfsemi LHÍ fyrir á sem bestan hátt á byggingarreitnum og þannig stuðla að fjölbreyttara mannlífi í miðbænum. Þættir eins og varveitt götumynd og fagurfræðileg útfærsla á úthliðum byggingar skiptu að sjálfsögðu líka miklu máli. Það sem vegur þó þyngst í lausn verkefnis að þessu tagi er hvernig byggingunni tekst að bjóða almenningi inn fyrir, án þess þó að það trufli meginstarfsemi skólans og hvernig byggingin getur skilað hugarflugi listnema út í samfélagið og nánasta umhverfi.
Á laugardaginn fyrir viku fór ég á kynningu á vinningstillögunni sem haldin var í Regnboganum. Það lék ekki nokkur vafi á að hér væri ljómandi gott og skemmtilegt verkefni á ferðinni. Fyrir það fyrsta var afstaða til umhverfis og gamalla húsa á reitnum mjög skýr og vel ígrunduð. Tvö hús munu fara og í staðinn myndast rúmgott torg og þægileg aðkoma inn í byggingu. Ennfremur fær eitt hús að vera áfram þar sem starfrækt verður kaffihús sem snýr að torginu. Eftirsjá verður af “Vínberinu” en erfitt reyndist að vinna með það inn í tillöguna vegna byggingarlag þess húss.
Kassalaga uppbygging hússins var einnig vel ígrunduð með tilliti til umhverfis, eins og sjá má á myndbandi á heimasíðu LHÍ. Unnið er með stærðarhlutföll úr nánasta umhverfi en jafnframt eru skörp skil á milli þess hvar umhverfið endar og Listaháskólinn byrjar. Kassar með munstri, í ætt við íslenskan vefnað, eru skemmtilegir og bera vott um sköpunargleði höfunda og er ekkert nema gott um það að segja. Kassahugmyndin nýtur sýn svo sérstaklega vel í dramatísku umhverfi Hverfisgötunnar en á sama hátt getur maður spurt sig hvort sú hlið er snýr að Laugarvegi hefði ekki mátt vera aðeins fínlegri til að auka á dramatíkina og andstæðurnar í útliti hússins. Þar sem kassarnir eru gegnumgangandi alls staðar í byggingunni verða skörp skil á milli vinnustofa sem getur verið ókostur í starfsemi sem þessari.
Engu að síður mynda kassarnir meiraháttar spennandi ramma utan um starfsemi skólans, þar sem nemendum gefst kostur á að fylla inn í rammana með verkum sínum og hugmyndum og verða þannig sjálfir hönnuðir að úthliðum byggingarinnar. Þessi sterku tengsl á milli útlits og starfsemi er vafalaust einn stærsti kostur tillögunnar og gefur góð fyrirheit um það sem koma skal.
Mótbárur gagnvart tillögunni hafa verið ósanngjarnar og illa ígrunndaðar. Það sem er ámælisvert í þessari gagnrýni er skilningsleysi gagnvart mikilvægi þess að skapa líf í miðbænum. Það er vissulega rétt að bárujárnshús eru falleg dæmi um íslenska byggingararfleið. Í Þingholtunum eru fjölmörg dæmi um þessi hús en þarf þá að varðveita hvert eitt og einasta þeirra á Laugarveginum? Stórir búðargluggar á Laugarvegi segja sína sögu um samfélgið og þróun þess á síðustu öld. Er það einhver ómerkilegri saga sem ekki á að varðveita? Er alveg örugglega betra að byggja listaháskóla í 19. aldar stíl með tilheyrandi litlum gluggum á meðan stórir gluggar í nýrri byggingu henta starfseminni og tengingu hennar við umhverfið og mannlífið betur? Er ekki eflaust betra að spyrja sig nokkurra spurninga og kynna sér málin, áður en leggja á stað með áróður gagnvart velheppnaðri vinningstillögu?