Fegurð og Reykjavík
Í kreppunni okkar er Davíð Oddsson ekkert að fara á kostum sem seðlabankastjóri. Sem forsætisráðherra átti hann bæði góða daga og vonda en sem borgarstjóri var hann nokkuð sprækur. Í hans tíð urðu til byggingar eins og Perlan, Ráðhúsið og dómshús Hæstaréttar. Honum fannst bárujárnshúsin við Bergþórugötuna falleg, en hafði engu að síður trú á að nýjar byggingar gætu fallið vel inn í borgarmyndina.
Í kreppunni þessa dagana gengur einhver skipulagshagfræðingur um götur borgarinnar og reiknar út hvort borgin sé falleg eða ljót. Hagfræðingurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur reiknað það út að borgin sé ljót og það sama gildi um Prag í Tékklandi. Þetta hélt hann fram í Silfri Egils um daginn þar sem hann fékk nokkurs konar drottingarviðtal með tilheyrandi hlátri frá skottulækningablaðamanninum, Agli Helgasyni.
Það væri leikur einn að koma með mótrök gegn öllu því sem kom fram í þessu viðtali. Þarna var nánast ekkert sagt að viti. Ætla þó rétt aðeins að fara út í stærstu mótsagnirnar. Sigmundi finnst að arkitektar eigi nú að hlusta eftir markaðslögmálunum,teikna byggingar í klassískum stíl og þannig leggja sitt að mörkum til að bjarga húsnæðismarkaðinum. Það sem hann þó ekki sér er að mörg hús sem byggð hafa verið að undanförnu lúta öllum markaðslögmálum. Til að spara sem mest er litlum sem engum fjármunum varið í hönnunarkostnað. Hús á að vera fljótlegt og auðvelt í byggingu. Þannig fá verktakar meira fyrir sinn snúð og geta talað um arðsemi bygginga sinna.
Það sem er þó hvað leiðinlegast í allri umræðunni er sú tíska að tala um Reykjavík sem ljóta borg. Hér er á ferðinni einhver misskilinn töffaraháttur, svipað því þegar unglingum finnst foreldrar sínir geðveikt hallærislegir. Hvorki Egill né Sigmundur eru þó unglingar. Þetta eru fullorðnir menn sem eiga að vera í stakk búnir til að sjá að neikvæður útgangspunktur, í sérhverri umræðu, leiðir aldrei til neins góðs.
Reykjavík er mjög falleg borg. Aftur á móti er hún ekki falleg alls staðar. Þrátt fyrir það er óþarfi að einblína einungis á það sem miður fer. Betra væri að skoða það góða í gömlum og nýjum arkitektur, reyna að átta sig á hvað gerir það gott og draga lærdóm af því. Fyrst þá verður til grundvöllur fyrir hugsandi umræðu um skipulagsmál á Reykjavíkursvæðinu.